Samstarf

Samstarf við íslenska hampræktendur

Atomos.is

Atomos selur hampblóm frá íslenskum ræktendum.

„Við leggjum mikið upp úr rekjanleika og gæðum. Okkur hefur margoft verið boðinn hampur sem keyptur var erlendis frá en það samræmist ekki okkar stefnu,“ segir Unnar Þór Sæmundsson, annar eigandi fyrirtækisins Atomos en Atomos selur snyrtivörur sem innihalda CBD svo sem olíur og krem.

Atomos er í samstarfi við íslenska hampbændur og er glæný uppskera í húsi. Hampræktun er nokkuð ný af nálinni hér á landi en tilraunir með að rækta hamp hér á norðurslóðum virðast lofa góðu að sögn Unnars. Iðnaðarhampur er til margs nýtilegur en Atomos annast sölu á laufum og blómum plöntunnar.

„Stilkana er hægt að nota í iðnaðarframleiðslu en laufin og blómin eru aðallega notuð í te. Íslenski hampurinn og hampblómin eru frábærar vörur. Það er talsverður munur á gæðum á uppskerunni í fyrra þegar ræktunin var á tilraunakenndara stigi en nú er þetta í mikilli sókn. Þessi vara er ein sú vinsælasta og selst upp hjá okkur aftur og aftur, fólk er vitlaust í þetta,“ segir Unnar. 

„Við viljum veita þá þjónustu að viðskiptavinur viti hvaðan varan kemur og samstarf við íslenska ræktendur lá beint við, ræktendur losna við umstangið við að pakka vörunni, kynna og koma á markað og geta einbeitt sér að því að rækta. Við höfum stóran viðskiptavinahóp og vettvanginn til að kynna og selja,“ segir Unnar og tekur fram að ekki sé um vímugjafa að ræða. „Varan inniheldur ekki THC, það væri hægt að borða mörg kíló af þessu en það hefur engin slík áhrif.“

„Við höfum tekið við vörum frá þremur ræktendum, Böðmóðsstöðum, Syðri Þverá og Norðurhampi og viljum bjóða upp á sem mest úrval. Það er hægt að rækta mismunandi afbrigði og Atomos mun koma með fleiri von bráðar. Við sjáum fyrir okkur að eftir ár eða tvö verði íslensk hamprækt orðin útbreidd. Við viljum komast í samstarf við fleiri, draumurinn er að allar þær vörur sem við bjóðum upp á verði framleiddar hér á Íslandi,“ segir Unnar. Í raun séu kjöraðstæður hér á landi fyrir hamprækt.

„Hér er ræktað við hrein skilyrði, plantan er fljótvaxin og hampurinn græðir landið betur en lúpínan, sem mörgum er í nöp við. Hampurinn bindur einnig kolefni betur en tré og við gætum kolefnisjafnað Ísland með hamprækt. Þar fyrir utan er Ísland landfræðilega staðsett á milli tveggja stærstu markaðanna. Við teljum að mikil tækifæri liggi í hamprækt og nýsköpun í kringum hana,“ segir Unnar. Skýran lagaramma vanti hins vegar.

„Því miður er hvorki lagaumhverfi hér á landi né aðstaða til að fara út í framleiðslu af þeim gæðastaðli sem við viljum, þetta er allt á einhverju óljósu og gráu svæði. Þetta er óþægileg staða og við höfum kallað eftir að komið verði skikki á þessi mál. Það er ákveðin pólitísk forræðishyggja í gangi sem hlýtur að vera tímaspursmál að taki enda. Hampurinn er að ryðja sér til rúms í Evrópu og hefur fyrir löngu gert það í Bandaríkjunum. En það er svo auðvelt að rækta þetta að það er engin þörf á að flytja þetta inn.

Nánar má kynna sér vörur Atomos hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×