Viðskipti innlent

Útlit fyrir 8,2 milljarða hagnað hjá Arion banka

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúni. Vísir/vilhelm

Samkvæmt drögum að uppgjöri Arion banka fyrir þriðja ársfjórðung hagnaðist bankinn um 8,2 milljarða króna og er reiknuð arðsemi á ársgrundvelli um 17%. Afkoman er umfram fyrirliggjandi spár greiningaraðila en bankinn hagnaðist um 4,0 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020.

Rekstrartekjur fjórðungsins námu um 15 milljörðum króna en þar af eru tekjur af kjarnastarfsemi, það er hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi, um 12,7 milljarðar króna. Hækka þær um 7,5% frá þriðja ársfjórðungi 2020.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum en rekstrarkostnaður fjórðungsins nemur um 5,6 milljörðum króna og hækkar um tæp 7% frá sama tímabili árið 2020.

Uppgjörið fyrir þriðja ársfjórðung 2021 er enn í vinnslu og kunna tölur því að taka breytingum fram að birtingardegi þann 27. október næstkomandi.

Hreinar fjármunatekjur tvöfölduðust

Hreinar þóknanatekjur Arion banka námu 3,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 2,8 milljarða króna á sama tíma 2020. Er aukningin sögð mest í fyrirtækja- og fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringu.

Hreinar fjármunatekjur námu 1,4 milljörðum króna á fjórðungnum, samanborið við 0,7 milljarða króna á sama tíma 2020.

Virðisbreyting útlána var jákvæð um 0,7 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2021 en á sama tíma fyrir ári var virðisbreyting neikvæð um 1,3 milljarða króna og tengdist að mestu óvissu sem uppi var vegna COVID-19 faraldursins.

Jákvæð afkoma af eignum til sölu var um 0,6 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2021 samanborið við neikvæð áhrif upp á 1,0 milljarð króna á sama fjórðungi 2020.

Tekjuskattshlutfall fjórðungsins er 20% og kostnaðarhlutfall er um 38%.


Tengdar fréttir

Arion hagnaðist um tæpa átta milljarða

Hagnaður Arion banka nam 7,8 miljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Afkoman er betri á öllum sviðum bankans sé miðað við sama ársfjórðung á síðasta ári.

Áframhaldandi uppsagnir hjá bönkunum

Stóru bankarnir þrír sögðu samanlagt upp 39 manns í september. Landsbankinn sagði upp níu starfsmönnum og Arion banki sex í fyrradag.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.