Neytendur

Bíla­tryggingar hækka mjög á meðan slysum fækkar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Runólfur Ólafsson er formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson er formaður FÍB. vísir/baldur

Bíla­tryggingar hafa hækkað mjög á síðustu árum á sama tíma og bæði um­ferðar­slysum og slösuðum ein­stak­lingum í um­ferðinni fækkar. Fram­kvæmda­stjóri Fé­lags ís­lenskra bif­reiða­eig­enda (FÍB) gagn­rýnir tryggingar­fé­lögin, lífeyrissjóðina og fjár­mála­eftir­litið fyrir að leyfa þessari þróun að við­gangast.

„Ið­gjalda­hækkanir á bíla­tryggingum eru komnar út yfir allt vel­sæmi. Frá 2015 hefur vísi­tala bíla­trygginga hækkað um 44% meðan vísi­tala neyslu­verðs hækkaði um 17%. Á sama tíma hefur um­ferðar­slysum fækkað um 14% og slösuðum fækkað um 23%,“ skrifar Runólfur Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri FÍB, í grein sem birtist á Vísi í morgun.

Hlutfallsleg breyting milli ára af vefsíðu FÍB. Slysatölur samkvæmt slysaskráningu Samgöngustofu til ársloka 2020.FÍB

Með fækkun slysa hefur kostnaður trygginga­fé­laganna eðli­lega minnkað til muna en á sama tíma hækka ið­gjöldin. Runólfur segir ið­gjöld bíla­trygginga hér á landi að jafnaði tvö­falt hærri en á hinum Norður­löndunum.

Tryggingafélögin hér kallar hann „óstöðvandi okurfélög“.

„Trygginga­fé­lögin hafa löngum reynt að rétt­læta ið­gjalda­okrið með til­vísun í að hlut­fall tjóna af ið­gjöldum sé yfir 100%. En undan­farin misseri hefur þetta hlut­fall verið vel undir 100% og allt niður í 80%. Það stað­festir minnkandi tjóna­kostnað. Samt hefur það engin á­hrif á ið­gjöldin, heldur þvert á móti - þau hækka jafnt og þétt,“ skrifar Runólfur.

Hann segir enga sam­keppni ríkja milli tryggingar­fé­laganna. Þau hafi bein­línis hags­muni af því að hækka sín verð í sam­ræmdum takti og skipta markaðnum bróður­lega á milli sín. Þannig græði þau mest.

Lífeyrissjóðir og fjármálaeftirlit geri ekkert

„Fjöl­skylda með hús­eign og tvo bíla borgar um eða yfir 400 þúsund krónur á ári í ið­gjöld trygginga. Að­eins brot af þessum peningum fer til að kaupa raun­veru­lega tryggingar­vernd. Restin rennur í á­vöxtunar­sjóðina og arð­greiðslurnar,“ segir Runólfur.

„Þar sem trygginga­fé­lögin teljast fjár­mála­fyrir­tæki þá heyra þau undir Fjár­mála­eftir­lit Seðla­bankans. Árum saman hefur fjár­mála­eftir­litið ýmist hvatt trygginga­fé­lögin til að hækka ið­gjöld eða gæta þess vel og vand­lega að fara ekki í verð­sam­keppni. Neyt­endur eiga ekkert skjól hjá þessari furðu­legu eftir­lits­stofnun.“

Honum þykir ekki síst ó­eðli­legt að líf­eyris­sjóðirnir séu aðal­eig­endur VÍS, Sjó­vá og bankanna sem eiga Vörð og Kviku.

„Líf­eyris­sjóðirnir á­vaxta þannig líf­eyri bíl­eig­enda með því að okra á þeim í gegnum trygginga­fé­lögin. Kald­hæðnin lekur af þeirri sviðs­mynd.“

Tryggð ekki hátt metin hjá tryggingar­fé­lögum

Runólfur hvetur bíla­eig­endur þá alla til að óska reglu­lega eftir til­boðum frá öllum tryggingar­fé­lögunum og taka á­vallt því lægsta. Þau eigi það nefni­lega til að lækka sig fyrir nýja við­skipta­vini.

„Þeir sem halda tryggð við trygginga­fé­lagið borga hins vegar á­fram hæstu ið­gjöldin. Tryggð er ekki hátt metin hjá trygginga­fé­lögunum,“ skrifar Runólfur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×