Neytendur

Neytendur alls ekki réttlausir standi þeir frammi fyrir alltof háum reikningi frá verktaka

Birgir Olgeirsson skrifar
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Sigurjón

Neytendasamtökin aðstoða á annað hundruð einstaklinga á ári hverju sem telja sig hlunnfarna af verktökum. Oftast varða málin ágreining um upphæðir en milljónir króna geta verið á milli þess sem verktakinn fer fram á og þess sem kaupandinn er tilbúinn að greiða.

Um 170 mál berast neytendasamtökunum á ári hverju vegna ágreinings um framkvæmdir. Það gera fjögur mál í hverri viku en þetta er með erfiðari málum sem samtökin eiga við. Það á sérstaklega við þegar samningar liggja ekki fyrir. 

„Ef fólk er ósátt við upphæðir reikninga þá er það þannig samkvæmt samningalögum þá á fólk rétt á að greiða það sem sanngjarnt og eðlilegt má teljast,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. 

Hvað er svo sanngjarnt og eðlilegt er stór spurning, en oftast er tekið mið af því sem greitt hefur verið fyrir sambærilega framkvæmd. Náist ekki samningar við verktakann, er hægt að leita til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.

Úrskurðir kærunefndar vöru og þjónustukaupa eru afar fjölbreyttir. Þar má til dæmis finna sögu af flísalögn sem fór úr böndunum. 340 þúsund króna reikningur var þar lækkaður um tæpar 50 þúsund krónur því það þótti til dæmis ekki eðlilegt að saga flísar fyrir verkið í fjórtán klukkustundir.

Breki segir dæmi um að milljónir hafi borið á milli kaupanda verks og verktaka.

„Þetta geta verið þakviðgerðir, sprunguviðgerðir í múverki og upp í heilu húsin sem fólk er að lenda í vandræði með,“ segir Breki. Hann segir neytendum ekki að örvænta ef þeir telja sig réttlausa gagnvart háaum reikningum.

„Neytendur hafa þann rétt að greiða það sem sanngjarnt og eðlilegt getur talist og hafa ýmsar leiðir til að leita réttar síns hvað það varðar.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×