Erlent

Morðingi Roberts Kennedy gæti gengið laus

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sirhan Sirhan hefur setið í fangelsi í 53 ár fyrir morðið á Robert Kennedy.
Sirhan Sirhan hefur setið í fangelsi í 53 ár fyrir morðið á Robert Kennedy. Getty

Nefnd, sem ákveður hvort föngum skuli veitt reynslulausn, hefur ákveðið að morðingi Roberts F Kennedy, sem sóttist eftir að verða forsetaefni Demókrata árið 1968, skuli látinn laus úr fangelsi. 

Sirhan Sirhan hefur verið á bak við lás og slá í Kaliforníu í 53 ár fyrir að hafa skotið Kennedy á fjölmennum kosningafundi á hóteli í Los Angeles í júní 1968. Niðurstaða nefndarinnar þýðir ekki að Sirhan muni endilega ganga laus, en það er nú í höndum Gavins Newsom ríkisstjóra Kaliforníu að staðfesta niðurstöðu nefndarinnar, sem telur Sirhan ekki hættulegan samfélaginu. 

„Kennedy öldungardeildarþingmaður var von heimsins og ég skaðaði alla og ég harma að hafa gert þetta,“ er Sirhan sagður hafa sagt við nefndarmeðlimi. 

Embætti héraðssaksóknara í LA hefur þegar sagt að það muni ekki leggjast gegn tillögu nefndarinnar um að Sirhan skuli látinn laus. 

Þetta er sextánda skiptið sem Sirhan hefur sótt um reynslulausn. Hann sagði á sínum tíma að hann hafi myrt Kennedy vegna stuðnings hans við Ísraelsríki en Sirhan er sjálfur Palestínumaður. Hann sagði síðar að hann myndi ekkert eftir árásinni. 

Tvö börn Kennedys lýstu yfir stuðningi við reynslulausn Sirhans áður en nefndin kom saman. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×