Innlent

Ætla að lyfta upp einkaþotu sem situr föst á Rifi

Kjartan Kjartansson skrifar
Hjól einkaþotunnar sukku ofan í slitlagið við flugstöðvarbygginguna á Rifi.
Hjól einkaþotunnar sukku ofan í slitlagið við flugstöðvarbygginguna á Rifi. Adolf Ingi Erlingsson

Vonir standa til að þýsk einkaþota sem festist í slitlagi á flugvellinum á Rifi á Snæfellsnesi verði hífð upp á morgun. Rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglan hafa óhappið til rannsóknar.

Óhappið varð þegar flugmaður þýskrar einkaþotu af gerðinni Embraer Phenom 300 ók henni að stæði við flugstöðina á Rifi skömmu eftir lendingu á sunnudag. Gróf vélin sig niður í bundna möl og sat þar föst, að sögn Grettis Gautasonar, staðgengils upplýsingafulltrúa Isavia. Ríkisútvarpið sagði fyrst frá óhappinu í gær.

Engan sakaði og flugvélin hefur ekki áhrif á aðra umferð um flugvöllinn. Grettir segir málið komið til viðeigandi stofnana. Hann hefur ekki upplýsingar um eiganda þotunnar. Skráningarnúmer hennar er þýskt.

Þá segist hann ekki vita hvort að skemmdir hafi orðið á vélinni en það komi væntanlega í ljós þegar hún verður hífð upp.

Slitlag virðist hafa gefið sig þegar einkaþotan keyrði inn á flugvélastæði.Adolf Ingi Erlingsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×