Viðskipti innlent

Kostnaður við snjall­mæla­væðingu Veitna á­ætlaður 5,7 milljarða króna

Eiður Þór Árnason skrifar
Með snjallmælunum verður gögnum um notkun viðskiptavina safnað á tíu til 60 mínútna fresti.
Með snjallmælunum verður gögnum um notkun viðskiptavina safnað á tíu til 60 mínútna fresti. vísir/vilhelm

Áætlaður kostnaður Veitna við snjallvæðingu mæla er 5,7 milljarðar króna. Þetta kemur fram í svari Veitna við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, áheyrnafulltrúa Miðflokksins í borgarráði.

Í febrúar greindu Veitur frá fyrirhugaðri uppsetningu á 160 þúsund nettengdum snjallmælum. Hefur fyrirtækið samið við Securitas um mælaskipti á um 102 þúsund rafmagnsmælum, 55 þúsund varmamælum og þrjú þúsund vatnsmælum en samningurinn við Securitas er metinn á 1,8 milljarða króna.

Áætlanir Veitna gera ráð fyrir að snjallmælavæðingu veitukerfanna verði að fullu lokið í árslok 2024.

Í svari Veitna við fyrirspurn Vigdísar segir að ein rökin fyrir snjallvæðingunni sé að núverandi mælasafn Veitna sé komið að endimörkum líftíma síns og tækifæri talið vera til kynslóðaskipta. Þá sé um að ræða þátt í stafrænni þróun veitureksturs og þjónustu við viðskiptavini. Viðskiptablaðið vakti fyrst máls á minnisblaðinu.

Snjallmælar munu smám saman koma í stað gömlu mælanna.

Borgar einungis fyrir raunverulega notkun 

Með snjallmælunum verður gögnum um notkun viðskiptavina safnað á tíu til 60 mínútna fresti í stað þess að notkunarupplýsingar séu einungis lesnar einu sinni á ári. Að sögn Veitna gerir það að verkum að fólk borgar einungis fyrir raunnotkun, þarf ekki að lesa af mælum og áætlunarreikningar heyra sögunni til.

Einnig munu viðskiptavinir geta fylgst náið með orkunotkun sinni og nýtt gögnin til að lækka orkureikninginn. Nýju mælarnir eiga svo að auka möguleika Veitna til að stýra viðhaldi veitukerfa og bregðast við þróun rafbílavæðingar.

„Rafbílavæðing hefur í för með sér nýtt álag á veitukerfið sem nauðsynlegt er að vakta og stýra þannig að fjárfestingar í veitukerfunum nýtist sem best,“ segir í svarinu.


Tengdar fréttir

Veitur semja við Securitas um uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum

Veitur hafa samið við Securitas um uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum, í samning sem metinn er á 1,8 milljarð króna. Til stendur að skipta um 102 þúsund rafmagnsmæla, 55 þúsund varmamæla og þrjú þúsund vatnsmæla á þjónustusvæði Veitna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×