Erlent

Drónamyndband sýnir eyðilegginguna í Þýskalandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Áin Ahr í Þýskalandi hefur verið sérstaklega skæð í flóðunum.
Áin Ahr í Þýskalandi hefur verið sérstaklega skæð í flóðunum. (AP Photo/Michael Probst)

Myndband sem tekið er á dróna í bænum Erfstadt-Blessem í vesturhluta Þýskalands sýnir glögglega hversu mikil eyðilegging hefur orðið að völdum mikilla flóða eftir úrhellisrigningu á svæðinu.

Talið er að minnst 120 hafi látist í Vestur-Evrópu vegna flóðanna. Gríðarmikil rigning hefur orðið til þess að ár hafa flætt yfir bakka sína, stíflur hafa brostið og aurskriður fallið.

Um 100 hafa látist í Þýskalandi og 22 í Belgíu. Björgunarstarf á svæðinu hefur verið afar umfangsmikið enda hefur fjöldi húsa hrunið og fólk ýmist festst í rústunum eða uppi á húsþökum. Mikils fjölda er enn saknað og heilu bæirnir eru í rúst.

Sjöfn Mueller Thor, prestur Íslendinga í Lúxemborg, er á meðal þeirra sem flóðin hafa áhrif á, en hún lýsti ástandinu í heimabæ sínum Inden í Þýskalandi í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, þar hefur áin Inde flætt yfir bakka sína.

„Hún braust hérna í gær niður í kolanámuna sem er við bæinn og það var mikill léttir því þá fór vatnið að ganga til baka. Þá var það komið upp á hæðina hjá okkur. En það var sömuleiðis hræðilegt því það varð manntjón þarna niðri. Þar var maður sem fórst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×