Viðskipti innlent

Draga úr plast­notkun og minna fólk á fjöl­nota pokana

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lífrænir plastburðarpokar eru ekki lengur á boðstólum við kassa þessarar verslunar í Garðabæ.
Lífrænir plastburðarpokar eru ekki lengur á boðstólum við kassa þessarar verslunar í Garðabæ. Vísir/Vilhelm

Verslanir Bónus og Hagkaup eru hættar að selja lífræna plastburðarpoka á kassasvæði. Fólk er hvatt til að muna eftir fjölnota pokum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Högum, sem rekur bæði Hagkaup og Bónus. Áfram verður hægt að kaupa lífræna plastpoka í verslununum en þeir verða ekki til sölu við kassa,

,,Við höfum ávallt lagt natni við umhverfisvernd og sjálfbærni, m.a. með því að vinna stöðugt að minni plastnotkun í verslunum okkar,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, í tilkynningunni.

„Viðskiptavinir verslana Bónus og Hagkaups koma mjög margir með fjölnota poka í verslun eða kaupa fjölnota poka. Hinsvegar eru ennþá margir sem að versla lífræna niðurbrjótanlega burðarpoka á kassasvæði. Við hvetjum viðskiptavini okkar til þess að finna sér eftirminnilega leið við að taka fjölnota poka með í verslunarferðina. Það tekur nokkur skipti að breyta hegðun en þegar búið er að endurtaka hegðunina nokkrum sinnum þá eru líklegt að hún festi sig í sessi. Kannski mætti segja að þetta sé eins og að æfa gamlan lagstúf bara að reyna að endurtaka hann nógu oft þá man maður hann. Munum eftir fjölnota,“ er haft eftir Finni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×