Viðskipti innlent

Seldu fyrir 2,9 milljarða í Origo

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi Hvals.
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi Hvals. Getty/Arnaldur Halldórsson

Hvalur hf. og tengt félög seldu í morgun allan hlut sinn í upplýsingatæknifyrirtækinu Origo fyrir tæplega 2,9 milljarða króna. Félögin seldu um sextíu milljónir hluta sem jafngildir 13,8 prósenta hlut í Origo. Hvalur átti 11,57 prósent í Origo.

Viðskiptablaðið greinir frá en viðskiptin fóru fram á genginu 48 krónur á hlut. Fossar sáu um sölu hlutanna í lokuðu söluferli.

Systkinin Kristján Loftsson og Birna Loftsdóttir eru stærstu hluthafarnir í Hval og eiga sömuleiðis félagið Eldkór ehf. sem seldi allan 2,15% hlut sinn í Origo.

Verð á bréfum í Origo hefur hækkað verulega undanfarin ár. Þannig segir Viðskiptablaðið að gengið hafi hækkað um 77% á innan við ári og um 155% á síðustu fimmtán mánuðum.

Lífeyrissjóður verslunarmanna á 13,62 prósenta hlut í Origo og þar á eftir Birta lífeyrissjóður með 11,76 prósenta hlut. Næst koma lífeyrissjóðirnir Lífsverk og Stapi með 6,77 og 5,66 prósenta hlut. Lista yfir stærstu hluthafa má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×