Atvinnulíf

Líkamstjáning á fundum og nokkur góð ráð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Almennt er mælt með því að krossleggja hvorki fætur né hendur á fundum. Undantekning á þessu getur þó verið þegar konur eru klæddar í pils eða kjól, sem nær fyrir ofan hné eða um hné, og sitja á stól án þess að vera með borð í hærri stöðu fyrir framan sig. 
Almennt er mælt með því að krossleggja hvorki fætur né hendur á fundum. Undantekning á þessu getur þó verið þegar konur eru klæddar í pils eða kjól, sem nær fyrir ofan hné eða um hné, og sitja á stól án þess að vera með borð í hærri stöðu fyrir framan sig.  Vísir/Getty

Það skiptir ekki máli hvernig samskiptin okkar fara fram, þegar að við hittum fólk viljum við koma vel fyrir. Hvort sem við erum á fundum, fjarfundum eða bara í almennu spjalli eða viðtölum við viðskiptavini eða samstarfsfólk, skiptir líkamsbeitingin okkar máli.

Á vefsíðunni easymeeting.net er að finna ýmsan fróðleik sem getur nýst vel þegar að fólk vill koma vel fyrir. Hér eru fimm atriði sem gott er að hafa í huga.

1. Ekki krossleggja hendur né fætur

Leggðu áherslu á að vera afslappaður/afslöppuð, rétta úr baki og krossleggja hvorki hendur né fætur. Þannig ertu að senda þau skilaboð að þú sért opin/n og jákvæður fyrir þeim samskiptum sem framundan eru.

Mögulega vilja konur sem klæðast pilsi eða kjól fyrir ofan eða um hné, þó krossleggja fætur ef fundaraðstaðan er þannig að þær sitja á stól án þess að það sé borð fyrir framan.

Ef þú klæðist jakka, er mælt með því að þú hneppir honum frá þannig að hann sé opinn á meðan á fundi stendur.

2. Hallaðu þér lítillega í átt að viðmælanda

Þegar þú vilt að viðmælandi eða viðmælendur finni að þú hafir áhuga á þeim og umræðunni sem er í gangi, er ágætt að halla sér eilítið í átt að fólki.

Það sama gildir á fjarfundum. Líkamsbeiting þar sem þú hallar þér eilítið að myndavélinni þýðir að þú sért að sýna umræðum og viðmælendum áhuga.

Passaðu þig þó að vera ekki of nálægt myndavélinni því það er ekki rétt ásýnd að þú sért með andlitið þitt í of mikilli nærmynd.

3. Speglaðu líkamstjáningu fundargesta

Með því að spegla líkamstjáningu og svipbrigði fólksins sem þú ert að tala við á fundum, myndar þú sterkari tengsl. Þetta þýðir að ef viðmælandi brosir, brosir þú líka og kinkar kannski kolli. Og svo framvegis.

Auðvitað er ekki verið að tala um að þú hermir eftir öllu sem aðrir gera á fundi, heldur frekar verið að benda á að með því að vera vakandi yfir líkamstjáningu annarra, getur þú myndað sterkari tengsl með því að spegla þá hegðun/tjáningu að hluta.

4. Augnsamband og traust

Augnsamband er lykilatriði til að mynda traust á milli aðila í samskiptum. Með því að mynda augnsamband ertu að segja að athyglin þín sé á umræðum viðmælanda, að þú hafir áhuga og treystir því sem viðkomandi er að segja.

Í Covid hefur augnsambandið aðeins farið forgörðum á fjarfundum. Þar gleyma sér margir og enda með að horfa mest á sjálfan sig á skjánum. Leið til að breyta þessu er að horfa beint í myndavélina á meðan samskiptin fara fram.

5. Handabandið: Ef það heldur áfram?

Að því gefnu að handabandið lifi af heimsfaraldurinn, er það gömul saga og ný að ágætlega þétt handaband vekur traust. Handabandið má ekki vera of laust, en heldur ekki of fast.

Fyrir þann hóp fólks sem sér fram á að fundir og samskipti munu að mestu halda áfram í fjarfundarformi í kjölfar Covid, er ágætt að fara yfir það í huganum hvernig þú ert vanur/vön að kynna þig í upphafi fundar. Í raun má segja að þær sekúndur sem þú notar í að kynna þig, sé tækifærið þitt til að vekja upp það traust sem þú að öllu jafna hefur lagt áherslu á að fólk upplifi þegar þú heilsar með handabandi.


Tengdar fréttir

Góð ráð til að klúðra ekki sumarfríinu með stressi

Kannist þið við tilfinninguna um að þið varla náið að komast í sumarfríið því það er svo mikið að gera í vinnunni? Eða hvernig fyrstu dagarnir í sumarfríinu fara í að klára einhver verkefni. Senda og svara tölvupóstum. Taka einhver símtöl. Klára með samstarfsfélögum.

Þegar að sjálfsmyndin hrynur við atvinnumissi

Það er frábært þegar að vel gengur. Góð vinna, góður vinnustaður, góðir vinnufélagar, jafnvel góð laun. Vinir og vandamenn samgleðjast okkur í velgengninni. Starfið okkar eykur sjálfstraustið, við erum stolt af því hvað við gerum og hver við erum.

Elti drauminn í kjölfar atvinnumissis í Covid

„Ég missti vinnuna í fyrstu bylgju Covid, en ég hafði unnið í rétt yfir ár hjá Innnes. Þá var Sunna komin sex mánuði á leið með yngri strákinn okkar,“ segir Gunnar Ingi Svansson framkvæmdastjóri Cin Cin um aðdragandann að því að hann stofnaði fyrirtæki sem selur óáfenga eða lítið áfenga drykki. „Þarna var fullt af fólki að missa vinnuna og ég sá fyrir mér að hin hefðbundna atvinnuleit gæti orðið erfið. Sú hugsun ýtti undir þá hugmynd að þetta væri rétti tíminn til að elta drauminn,“ segir Gunnar.

Að forðast mistök á ZOOM fundum

Það er ekki bara fjarvinna sem er komin til að vera. Fjarfundir eru það líka. Að vera á fjarfundum á ZOOM, Teams, Messenger eða annars staðar er eitthvað sem við þurfum öll að þjálfa okkur í að standa rétt að.

Vinnualkar og helstu einkenni þeirra

Við tölum oft um fólk sem við teljum vera algjöra vinnualka. Eða viðurkennum okkur sjálf sem vinnualka. Stundum tölum við um að það sé jákvætt að vera vinnualki. Svona eins og það sé tilvísun í að vera mjög duglegur í vinnu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.