Atvinnulíf

Þegar að sjálfsmyndin hrynur við atvinnumissi

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Margir upplifa algjört hrun á sjálfsmynd sinni þegar að þeir missa vinnuna.
Margir upplifa algjört hrun á sjálfsmynd sinni þegar að þeir missa vinnuna. Vísir/Getty

Það er frábært þegar að vel gengur. Góð vinna, góður vinnustaður, góðir vinnufélagar, jafnvel góð laun. Vinir og vandamenn samgleðjast okkur í velgengninni. Starfið okkar eykur sjálfstraustið, við erum stolt af því hvað við gerum og hver við erum.

Síðan hrynur allt.

Því að við erum orðin atvinnulaus.

Kvíðinn gerir vart við sig og okkur líður jafnvel eins og við höfum tapað fleiru en vinnunni. Því allt í einu hefur ásýndin okkar breyst. 

Hvað ef ég verð ekki ráðin fljótlega eða fæ ekki vinnu? Hvað ef næsta vinna verður ekki eins góð eða flott og sú síðasta?

Hvað á fólk eftir að hugsa um mig þá?

Í umfjöllun um þessi mál á vefsíðu Harvard Business Review er vísað í rannsóknir sem hafa sýnt að sjálfsmyndin okkar og andleg líðan helst oft mjög vel í hendur við það hvernig okkur er að ganga í vinnu og starfsframa. 

Því betur sem okkur gengur, því sterkari sjálfsmynd.

Að sama skapi, eru afleiðingarnar af atvinnumissi oft flóknar tilfinningalega. Við förum jafnvel að efast um okkar eigin hæfni og getu.

Hér eru nokkur ráð til að sporna við þessu.

1. Hafðu samband við gamla vini

Að hafa samband aftur við gamla vini, frá æskuárunum, framhaldsskólaárunum eða upphafi fullorðinsáranna getur hjálpað.

Því þessi hópur vina þekkti okkur áður og er því ekki að tengja persónulega eiginleika okkar við starf, vinnustað eða starfsframa.

Að rækta gömul vinatengsl getur því gert okkur mjög gott.

2. Hvernig lýsa aðrir þér?

Þegar sjálfsmyndin hverfur við atvinnumissi er það meðal annars vegna þess að við erum sjálf svo bundin þeirri sannfæringu að við séum metin út frá starfinu okkar.

Til dæmis fyrst og fremst þekkt fyrir það hvað við erum dugleg og klár á ákveðnu sviði. Sérfræðingar, öflug. Með gífurlega þekkingu. Jafnvel framúrskarandi sem starfsmenn.

En hvernig myndu aðrir lýsa þér?

Í umræddri grein er bent á að eitt af því sem getur hjálpað er að spyrja nokkra einstaklinga sem þú þekkir vel, treystir vel og berð mikla virðingu fyrir, hvernig þeir myndu lýsa þér.

Oftar en ekki, eru svörin sem koma allt önnur en þau sem þú ert með í huga. Lýsingar eins og: 

Hress, skemmtilegur, frábær pabbi, traustur vinur, klár, lausnarmiðaður, fyndinn….eða eitthvað í þessum dúr gætu verið lýsingarorð.

Sem aftur þýðir að annað fólk er ekki að tengja sjálfsmyndina þína við starfið sem þú varst í, eins og þú kannski gerir sjálf/ur.

3. Að virkja okkur sjálf

Það er frábært að virkja sjálfan sig í áhugamálum þegar að við missum vinnuna. Margir vita hins vegar ekki alveg hvernig eða í hverju áhugamálin yfir höfuð felast.

Sumir hafa reyndar ekki áhuga á fleiri áhugamálum.

En hvort sem þú vilt bæta við áhugamálum, sinna þeim betur eða ekki, er gott að vinna í því að gera okkur upptekin.

Það er hægt með því að virkja sig í áhugamálum en eins líka að gera hugann upptekinn með því að vinna að einhverjum markmiðum. Sem geta verið lítil eða stór. Lítil markmið gætu til dæmis verið að þvottakarfan sé alltaf tóm eða að borða fisk tvisvar í viku en ekki einu sinni. Ryksuga bílinn á næstu bensínstöð.

Já, þú getur virkjað sjálfan þig með því að gera hugann upptekinn af því að finna verkefni, vinna að verkefnum, leysa úr verkefnum og klára verkefni. 

4. Besta útgáfan þín og framtíðin

Til þess að aðskilja sjálfsmyndina okkar við starfsframann, er ágætt að velta því fyrir okkur hver besta útgáfan af okkur sjálfum er.

Hvernig manneskja er ég þá? Hvað get ég gert til þess að vera alltaf besta útgáfan af sjálfri mér? 

Hvernig er framtíðarsýnin mín fyrir þessa manneskju sem ég vil helst vera?

Hvernig verður lífið þitt eftir tíu ár? Hvernig viltu að það verði?

5. Gildin

Annað sem er gott að gera er að skilgreina hver gildin okkar eru. Þetta er ekki það sama og að skrifa niður hverjir helstu styrkleikarnir okkar eru í starfi.

Því hér erum við að skoða hvaða eiginleikar einkenna okkur. Hvaða gildi finnst okkur lýsa því vel hver við erum?

Sem dæmi má nefna skapandi, sjálfstæð, heiðarleg og fleira.

6. Sjálfsrækt með stuðningi

Þegar að fólki líður illa á það til að draga sig svolítið í hlé. Verður einangrað í hugsunum sínum og vanlíðan. Þótt makinn viti oft margt, náum við samt ekki að opna okkur alveg eða að skýra út hvað það er helst sem er að valda okkur vanlíðan og okkur líður verst með.

Þegar að sjálfsmyndin hrynur vegna atvinnumissis er hins vegar mælt með því að við séum opin fyrir því að þiggja aðstoð. Sumir gætu valið þá leið að ræða við sálfræðing. Aðrir við traustan vin.

Með því að þiggja stuðning erum við að byggja okkur upp til framtíðar. Við náum betur að nýta þennan tíma í sjálfsrækt og gera okkur grein fyrir því að í framtíðinni viljum við ekki falla aftur í sömu gryfjur þar sem sjálfsmyndin okkar og starfsframinn er of samantvinnaður.

Því auðvitað erum við sem manneskjur svo miklu meira en eingöngu starfið okkar.


Tengdar fréttir

Elti drauminn í kjölfar atvinnumissis í Covid

„Ég missti vinnuna í fyrstu bylgju Covid, en ég hafði unnið í rétt yfir ár hjá Innnes. Þá var Sunna komin sex mánuði á leið með yngri strákinn okkar,“ segir Gunnar Ingi Svansson framkvæmdastjóri Cin Cin um aðdragandann að því að hann stofnaði fyrirtæki sem selur óáfenga eða lítið áfenga drykki. „Þarna var fullt af fólki að missa vinnuna og ég sá fyrir mér að hin hefðbundna atvinnuleit gæti orðið erfið. Sú hugsun ýtti undir þá hugmynd að þetta væri rétti tíminn til að elta drauminn,“ segir Gunnar.

Sjálfsmyndin oft erfið stjórnendum og hálauna fólki

Kanntu að gera skil á milli þín og vinnunnar? Eða byggir sjálfsmatið þitt á stöðugildinu sem þú sinnir í dag? Að starfsferillinn hafi í raun yfirtekið sjálfsmyndina er staða sem margir eru í, en oft óafvitandi. 

Rakst á auglýsingu á Facebook sem breytti öllu

„Það erfiðasta við að vera atvinnulaus og vilja virkilega fara aftur út á atvinnumarkaðinn er að fá endalaust neitanir. Síðan fylgir oft svörunum að svo svakalega margir, eða þrjú hundruð manns, hafi verið að sækja um sömu stöðu og ég,“ segir Thelma Sjöfn Hannesdóttir, rafvirki og þriggja barna móðir á Akranesi sem nú er að læra kerfisstjórn.

Vill útrýma skömminni sem fylgir því að vera atvinnulaus

„Skömm er tilfinning sem atvinnuleitendur hafa tekist á við mjög lengi tel ég og það er mjög mikilvægt að ræða þessa staðreynd“ segir Ásgeir Jónsson sem síðustu árin hefur haldið fjölda fyrirlestra fyrir fólk í atvinnuleit á vegum félagsins Takmarkalaust líf. Þessari skömm vill Ásgeir útrýma en segir það ekki auðvelt.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.