Innlent

Skipuleggja bólusetningar barna með undirliggjandi sjúkdóma

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.  Vísir/Vilhelm

Embætti sóttvarnalæknis vinnur nú að því að skipuleggja bólusetningar 12 til 15 ára gamalla barna með undirliggjandi sjúkdóma.

Bólusetningar þess aldurshóps hafa verið leyfðar innan Evrópusambandslanda, Bandaríkjanna og Kanada með bóluefni Pfizer. Moderna hefur sótt um neyðarleyfi fyrir bólusetninga barna frá 12 til 17 ára í Bandaríkjunum.

Pfizer hefur einnig hafið rannsóknir á áhrifum og virkni bóluefnisins á börnum yngri en tólf ára.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við fréttastofu að hér á landi sé verið að skipuleggja að bjóða 12 til 15 ára gömlum börnum, sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, í bólusetningu.

„Við erum að vinna í því með sérfræðingum og læknum að ákveða þann hóp sem verður kallaður í bólusetningu,“ segir Þórólfur en ekki stendur til að bólusetja öll börn í þessum aldursflokki sem stendur.

Horft verður til þeirra undirliggjandi sjúkdóma sem hingað til hafa verið taldir helstu áhættuþættir í faraldrinum. Nefnir Þórólfur þar lungnasjúkdóma og þau sem eru ónæmisbæld. Enn á eftir að komast að endanlegri niðurstöðu hvaða undirliggjandi sjúkdóma verði horft til.

Nú sé unnið að því að finna þau börn sem falla undir þá skilgreiningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×