Erlent

Njósnir Banda­ríkjanna með hjálp Dana séu skandall

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Peer Steinbrück árið 2013.
Peer Steinbrück árið 2013. Becker & Bredel/ullstein bild via Getty

Þýski stjórnmálamaðurinn Peer Steinbrück, fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands og fyrrum kanslaraefni þýskra Sósíaldemókrata, hefur brugðist harkalega við fréttum þess efnis að Bandaríkjamenn hafi njósnað um hann og aðra þýska stjórnmálamenn með hjálp Dana.

Bandaríkjamenn njósnuðu einnig um kanslara og forseta Þýskalands. Sænska ríkissjónvarpið SVT greinir frá viðbrögðum Steinbrück í dag. Greint hefur verið frá því að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin, NSA, hafi með hjálp danskra stjórnvalda njósnað um fjölda evrópskra stjórnmálamanna í nokkrum löndum á árunum 2012 til 2014.

„Að leyniþjónustur vinaþjóða hleri og njósni um leiðtoga annarra ríkja er fáránlegt. Frá pólitískum bæjardyrum séð er þetta skandall,“ hefur SVT eftir Steinbrück.

Hann kveðst sérlega móðgaður, þar sem hann sé nátengdur Danmörku persónulega. Amma hans sé fædd í Kaupmannahöfn og móðir hans hafi alist upp í Danmörku.

Samkvæmt umfjöllun SVT hafa Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Frank-Walter Steinmeier, forseti landsins, staðfest að þau hafi ekki áður vitað af hlerunum Bandaríkjamanna né tengslum Dana við þær.

„Það er eitt þegar leyniþjónustur njósna um austrið, Kína og Rússland, en þegar bandamenn njósna um vini sína, þá er það ekki í lagi. Þá er farið yfir strikið,“ sagði Steinbrück.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×