Körfubolti

„Maður hefur nokkru sinnum skotið á þessar körfur í gegnum alla yngri flokkana“

Atli Arason skrifar
Sara Rún í baráttunni fyrr í vetur.
Sara Rún í baráttunni fyrr í vetur. vísir/bára

Haukar eru komnar í 2-0 forystu í undanúrslita einvígi sínu við Keflavík eftir 68-80 sigur á Reykjanesinu í kvöld. Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst í liði gestanna í kvöld en Sara Rún er uppalin Keflvíkingur.

„Maður hefur nokkru sinnum skotið á þessar körfur í gegnum alla yngri flokkana. Kannski hjálpaði það mér í dag. Ég fékk góð skot og mér fannst sóknin hjá okkur flott þar sem við fengum þessi skot sem við vildum fá,“ sagði Sara Rún í viðtali strax eftir leik.

„Ég er mjög ánægð með liðið, ég er mjög ánægð að við náðum að klára þennan leik og að við séum núna í 2-0 forystu. Það þægileg staða en við erum alls ekkert hættar núna, við þurfum að ná einum í viðbót til þess að komast í úrslitin.“

Varnarleikur Haukanna var frábær í kvöld. Þær náðu ítrekað að þvinga heimakonur í erfið skot sem fóru ekki ofan í. Þrátt fyrir 12 stiga sigur Hauka þá tók Keflavík alls 12 skotum meira en Haukarnir gerðu af gólfinu. Sara var aðspurð hvort að öflugur varnarleikur hafi verið uppleggið fyrir leik.

„Já algjörlega. Baddi og Ingvar eru þvílíkt búnir að vera að herja á það við okkur, að við æfum hann [varnarleikinn] vel og þetta er eitthvað sem er að smella hjá okkur núna. Vonandi höldum við því áfram,“ svaraði Sara.

Söru langar ekkert sérstaklega að fara að gera einvígið aftur spennandi eftir sigurinn í kvöld.

„Það er algjörlega stefnan núna að taka þetta 3-0, vonandi fer þetta þannig,“ sagði kokhraust Sara Rún Hinriksdóttir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×