Innlent

Geymslur þurfa ekki að greiða skaðabætur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi brunans í Garðabæ í apríl 2018.
Frá vettvangi brunans í Garðabæ í apríl 2018. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur fyrst, svo Landsréttur og nú Hæstiréttur eru sammála um að fyrirtækið Geymslur sé ekki skaðabótaskylt vegna stórbrunans í Garðabæ í apríl 2018. Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í dag og staðfesti dóm á neðri dómstigum.

Stór hópur fólks var að baki málsókninni gegn Geymslum sem fékk áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Leigjendur geymslu kröfðust viðurkenningar á bótaábyrgð Geymslna vegna tjóns sem varð í brunanum. Fólkið geymdi tilteknar eigur sínar þar á grundvelli samnings við Geymslur.

Var krafan einkum reist á því að Geymslur rækju þjónustustarfsemi um geymslu á lausafjármunum samkvæmt lögum um þjónustukaup.

Hæstiréttur benti á að í ákvæðum samningsins kom fram að leigjendur hefðu afmarkaða og aflokaða geymslu auk þess sem Geymslur hefðu hvorki afskipti né vitneskju um hvaða munir væru geymdir þar. Því væri ekki hægt að fallast á með leigjandanum að samningurinn hefði verið um geymslu lausafjármuna gegn endurgjaldi í skilningi laga um þjónustukaup. Samningurinn félli undir gildissvið húsaleigulaga.

Ekki kæmi því til álita að með samningnum hefði verið vikið frá ákvæðum þjónustukaupalaga neytendum í óhag. Jafnframt var kröfu leigjandans um að víkja ákvæðum samningsins til hliðar á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar hafnað. Þá var talið ósannað að tjón leigjenda yrði rakið til vanrækslu eða annars konar saknæmrar háttsemi Geymslna.

Dóminn má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×