Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Á hverju kvöldi lifi ég í voninni um að ég muni vakna svaka hress klukkan sjö morguninn eftir þannig ég stilli klukkuna á þeim tíma.
Ég snúsa svo undantekningalaust í allavega hálftíma og fer á fætur um hálf átta til átta.
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég fer að kaffivélinni og skelli í mig um það bil þremur kaffibollum.
Ég einbeiti mér líka að því á morgnanna að gíra mig rétt inn í daginn. Það hefur svo mikil áhrif að mæta rétt innstilltur í vinnuna, sérstaklega ef maður er að vinna með öðru fólki. Jákvæðni og gleði smita út frá sér og neikvæðni og leiðindi draga alla niður.
Ég hef rosa gaman af uppistandi þannig það virkar vel fyrir mig að setja eitthvað skemmtilegt svoleiðis á sem ég hlusta á meðan ég fer yfir verkefni dagsins og gíra mig inn á þá bylgjulengd sem ég vil vera á áður en ég mæti í vinnuna. Stundum spila ég smá á píanó, tengt við heyrnartól svo ég æri ekki nágrannana.“
Þegar að þú rifjar upp skemmtilega leiki, eða dót, frá æskuárunum, hvaða minningar koma upp í hugann?
„Að tálga örvar með pabba og skjóta af bogum sem við bjuggum til saman úr plaströrum og böndum.
Ég las mikið Prins Valíant og lifði mig mikið inn í sverð, boga og örvar.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur við að þróa stafrænu sjálfbærnilausnirnar okkar sem miða að því að lágmarka vistspor.
Á síðasta ári fjölgaði notendum hugbúnaðarins okkar um 72% og eru nú rúmlega fjögur þúsund í yfir tuttugu löndum.
Þessi stækkun hefur haft það í för með sér að við vildum endurhugsa uppsetningu teymisins míns til að tryggja að viðskiptavinirnir okkar héldu áfram í gleðina.
Teymið mitt er nú að hanna og innleiða nýja ferla með það að markmiði að viðskiptavinir okkar fái þjónustu sem fer fram úr þeirra væntingum.
Ég hef líka unnið töluvert í markaðsmálum og var að klára „rebranding“ verkefni fyrir Klappir í síðasta mánuði. Það var svaka skemmtileg vinna sem snerti í raun allt í fyrirtækinu.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Það fer svolítið eftir því hvað ég er að gera hverju sinni. Mér finnst rosalega óþægilegt að mæta „köld“ í vinnuna og bý þess vegna til tékklista á morgnanna þar sem ég lista verkefni dagsins. Ég reyni að halda mig við það sem á honum er en oft kemur svo eitthvað upp sem ruglar í því skipulagi og maður þarf að færa eitthvað til.
Það er líka eðli vinnunnar, viðskiptavinir hringja og maður vill mæta þeim þar sem þeir eru. Það krefst þess stundum að maður leggi annað til hliðar og sinni þeim og það er líka bara í góðu lagi.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég myndi segja að ég reyni að fara að sofa á milli ellefu og klukkan eitt.
Ég verð alltaf að hlusta á eitthvað þegar ég sofna svo svefntíminn ræðst yfirleitt af því hversu fyndið eða skemmtilegt efnið er sem ég er að hlusta á er.
Ef það er skemmtilegt þá sofna ég seinna en á móti þá sofna ég hlægjandi og í rosa góðu skapi sem er alltaf gott.“