Atvinnulíf

Heitir í höfuðið á bryta Batmans

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Starfsfólk Alfreðs á Íslandi, fv.:  Gunnar Bjarki Björnsson, Guðrún Magnúsdóttir, Kolfinna Jónsdóttir, Erwin Szudrawski og Halldór Friðrik Þorsteinsson.
Starfsfólk Alfreðs á Íslandi, fv.:  Gunnar Bjarki Björnsson, Guðrún Magnúsdóttir, Kolfinna Jónsdóttir, Erwin Szudrawski og Halldór Friðrik Þorsteinsson. Vísir/Vilhelm

Halldór Friðrik Þorsteinsson, framkvæmdastjóri og einn eigandi ráðningaappsins Alfreðs, segir appið Alfreð heita í höfuðið á bryta Batmans. Alfreð fagnar átta ára afmæli sínu á þessu ári og er í dag í boði fyrir atvinnuleitendur og vinnuveitendur á Íslandi, í Tékklandi, Slóvakíu og á Möltu. Og enn er hugað að fleiri og stærri tækifærum fyrir þetta íslenska app. „Stafrænar lausnir eiga mjög auðvelt með að ferðast og þess vegna er freistandi að horfa út yfir túngarðinn,“ segir Halldór.

Alfreð er eitt þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem stofnað var áratuginn eftir bankahrun. Stofnendur Alfreðs eru Halldór Friðrik Þorsteinsson, Helgi Pjetur, Hreinn Gústavsson og Vernharður Reynir Sigurðsson.

Í dag eru eigendur Halldór, Vernharður og lykilstarfsfólk.

Flestir sáu auglýsinguna á Vísi

Að sögn Vernharðs var það í raun tilviljun að ráðninga-appið Alfreð varð til.

Aðdragandann má rekja til þess þegar að stofnendur stóðu sjálfir í ráðningaferli árið 2012 og þá fyrir hugbúnaðarfyrirtækið Stokk, sem í dag er systurfélag Alfreðs ehf.

„Stokki vantaði starfsfólk á þeim tíma og við auglýstum eftir því í Fréttablaðinu og á vísir.is. sem á þeim tíma var eitt og sama fyrirtækið. Þegar kom svo að atvinnuviðtölum þá kom í ljós að flestir umsækjenda höfðu séð auglýsinguna á Vísi,“ segir Vernharður og bætir við: 

Þetta olli því að næst þegar okkur vantaði fólk þá óskuðum við eftir því að auglýsingin yrði bara birt á Vísi og ætluðum með því að spara okkur blaðaauglýsinguna. 

Nema hvað að þá okkur var sagt að það væri ekki mögulegt. Það fannst okkur skrýtið svar, fékk okkur til að hugsa um nýjar og ósvaraðar þarfir á atvinnumarkaðnum og allt í einu var teningunum kastað.“

Eftir það gerðust hlutirnir hratt.

„Appið leit dagsins ljós fimm vikum síðar, 29. janúar 2013 og var skírt Alfreð í höfuðið á bryta Batmans, enda ætlað að veita notendum sínum framúrskarandi þjónustu,“ segir Halldór.

Halldór segir nafnið Alfreð eiga vel við því hlutverk bryta Batmans fólst í að þjóna, rétt eins og gildir um appið Alfreð.Vísir/Vilhelm

Útrásin hefst

Aðeins tveimur árum síðar, hófst útrás Alfreðs. 

Í raun má segja að sú útrás hafi einnig hafist af tilviljun.

„Við höfðum haft tékkneskan forritara í tímabundinni vinnu á Íslandi og þegar hann sneri heim þá ákváðum við að bjóða honum áframhaldandi vinnu og settum á laggirnar útibú Stokks í Prag,“ segir Vernharður.

Árið 2017 flutti Vernharður búferlum til Prag með það fyrir augum að spinna útrásarþráðinn áfram.

Tveimur árum síðar fór Alfreð í loftið í Tékklandi og Slóvakíu undir nafni Alfred Jobs.

„Það er mikill stærðarmunur á Íslandi og Tékklandi og við höfum verið að læra á markaðinn og safna dýrmætum mistökum sem er gott veganesti,“ segir Halldór.

Nýverið keypti Íslendingur sérleyfi Alfreðs fyrir Möltu, en Ísland og Malta hafa lengi verið sagðir mjög sambærilegir markaðir.

Halldór og Vernharður segja að það verði mjög áhugavert að sjá hvernig Alfreð mun spjara sig á Möltu. 

Þá segja þeir að þróun Alfreðs síðastliðin ár, hafa tekið mið af því að appið nýtist fleiri mörkuðum.

„Þróunin undanfarin ár hefur miðast við að gera Alfreð-kerfið skalanlegt til að geta selt kerfið á aðra markaði og nú hillir undir fyrsta sérleyfismarkaðinn þegar Alfreð fer í loftið á Möltu í lok þessa mánaðar,“ segir Vernharður.

Í vetur var Alfreð eitt þeirra íslensku vörumerkja sem vann til verðlaunanna „Bestu vörumerkin 2020.“

„Vel hugsað vörumerki er grunnur að góðu fyrirtæki, því bæði hefur gott vörumerki aðdráttarafl og í því speglast gildi þess og tilgangur,“ segir Halldór sem jafnframt bætir því við að á þeim átta árum sem Alfreð hefur starfað, hefur lærdómurinn reynst þeim mikill og verðmætur.

„Í appþróun er notendaviðmótið mjög mikilvægt. Það skiptir máli að hafa fjölbreytta hæfni starfsfólks, góður árangur er sjaldnast eitthvað eitt heldur margt í bland,“ segir Halldór og bætir við: „Og síðast en ekki síst þá skiptir skipulag fyrirtækisins máli. Góðir stjórnarhættir tryggja aðhald og skipulag sem er nauðsynleg umgjörð, eigi sköpunargleði og nýsköpun að fá notið sín til lengri tíma.“

Halldór segir þó mikilvægt að gera ekki ráð fyrir að velgengni Alfreðs verði auðveldlega jafn mikil alls staðar annars staðar.

Það má passa sig á að yfirfæra ekki velgengni á Íslandi á mun stærri markaði, þar geta verið önnur lögmál að verki. En hitt er mikilvægara að hafa áræði til að fara á aðra markaði og læra af mistökunum,“ 

segir Halldór.


Tengdar fréttir

Vilja ná sömu dreifingu um heiminn og Covid-19

„Það er ekki hægt að verða stærri en stærsti fiskurinn í sjónum nema vera með góðan grunn og okkur hefur nú þegar tekist að sanna að fólk vill nota vöruna. Það sem þarf hins vegar að gerast núna er varan þarf að sanna sig á mörkuðum utan landsteinanna og hún þarf að geta dreift sér sjálf, manna á milli, nokkurn veginn eins og kórónuveiran,“ segir Ásgeir Vísir, einn eigenda Smitten stefnumótaappsins sem kynnt var til sögunnar laust fyrir síðustu jól.

Arkitektarnir sem selja íslenska ull um allan heim

„Ég fór til föðurömmu minnar, Katrínar Gunnarsdóttur, á hverjum laugardegi í mörg ár frá því að ég var um það bil níu ára. Þá gekk ég frá Álfheimum í Efstastundið til hennar, sat hjá henni í litla eldhúsinu hennar og við prjónuðum saman með útvarps-gufuna í bakgrunninu. Amma eldaði saltfisk með hamsatólg í hádeginu, brauðsúpu með rúsínum eða rabbabaragraut í eftirmat og bakaði svo vöfflur klukkan þrjú,“ segir Kristín Brynja Gunnarsdóttir arkitekt og annar eigandi fyrirtækisins Einrúm um aðdragandann að því að Einrúmbandið varð til.

Stórsókn framundan en fyrstu kynningarnar hálf vandræðalegar

„Fyrstu fjárfestinga kynningarnar okkar Stefáns nafna míns og meðstofnandi í Solid Clouds, voru nú ekki uppá marga fiska. Ég gleymi því aldrei þegar að við æfðum okkur fyrir framan vini og kunningja. Dómarnir voru þeir að ég sneri bakinu í gesti á meðan ég var með framsögu og Stefán félagi minn talaði svo lágt að í honum heyrði enginn. Loks sagði einn í hópnum að hann væri engu nær um hvað við værum að gera og að kynningin væri með verri framsögum sem hann hefði heyrt!“ segir Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum tölvuleikjaframleiðslufyrirtækisins Solid Clouds.

610 greiðandi viðskiptavinir erlendis frá en þrír á Íslandi

„Í dag erum við með um 610 greiðandi viðskiptavini í sex heimsálfum. Þar af eru þrír á Íslandi. Einnig erum við með tugi þúsunda notenda á „freemium" eða fríplaninu okkar, og þar af eru einhverjir tugir eða hundruði á Íslandi,“ segir Jóhann Tómas Sigurðsson framkvæmdastjóri CrankWheel. Til samanburðar má nefna að fyrir fimm árum síðan voru greiðandi viðskiptavinir CrankWheel sextán talsins, þar af fimmtán á Íslandi en einn erlendis.

Nýsköpunarverkefni í kjölfar Covid sem skilaði af sér tugmilljóna króna viðskiptum

„Raunin var að fjöldi þátttakenda fimmfölduðust frá árinu áður og fóru úr þúsund gestum í fimm þúsund. Ánægja gesta hefur aldrei mælst hærri og 97% þeirra sem svöruðu ánægjukönnuninni voru ánægðir með nýja ráðstefnuvefinn,“ segir Auður Inga Einarsdóttir markaðsstjóri Advania um þá óvæntu en góðu þróun sem varð í kjölfar Covid, þegar Advania þróaði stafrænan viðburðarvef til að bregðast við þeirri stöðu að geta ekki haldið sína árlegu haustráðstefnu í Hörpu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×