Erlent

Enn greinast hundruð þúsunda á Indlandi: Indverska afbrigðið á gátlista WHO

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sjúklingur andar að sér súrefni á sjúkrahúsi í Kolkata. Hann er einn af þeim heppnu; fjöldi fólks hefur látist sökum súrefnisskorts síðustu daga og vikur.
Sjúklingur andar að sér súrefni á sjúkrahúsi í Kolkata. Hann er einn af þeim heppnu; fjöldi fólks hefur látist sökum súrefnisskorts síðustu daga og vikur. epa/Piyal Adhikary

Síðasta sólahring greindust 329.942 með Covid-19 á Indlandi. Þetta er annar dagurinn í röð þar sem fjöldi smita er undir 400 þúsund en þar á undan var hann yfir 400 þúsund fjóra daga í röð.

Alls hafa 22.992.517 greinst með kórónuveiruna á Indlandi og 249.992 látist.

Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri smit greinst, 32,7 milljónir. Á eftir Indlandi kemur Brasilía, með 15,2 milljónir smita.

Á Indlandi hafa 37.159.467 verið fullbólusettir en það jafngildir 2,85 prósent þjóðarinnar.

Tveir hafa greinst með hið svokallaða indverska afbrigði SARS-CoV-2 á Filippseyjum. Um er að ræða tvo einkennalausa einstaklinga sem hafa aldrei ferðast til Indlands en voru á leið heim frá Oman og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur sett indverska afbrigðið á gátlista en fyrir á listanum eru breska, suður-afríska og brasilíska afbrigðið. 

Afbrigði eru ýmist flokkuð sem „variant of interest“ eða „variant of concern“, sem mætti þýða sem afbrigði til að fylgjast með annars vegar og afbrigði sem veldur áhyggjum hins vegar.

Afbrigði eru sett í síðarnefnda flokkinn þegar þau uppfylla að minnsta kosti eitt af ákveðnum skilyrðum. Er það meðal annars að vera mjög smitandi, valda alvarlegum veikindum, hafa viðnám gegn mótefnum og/eða meðferðum og bóluefnum.

Sérfræðingar WHO sögðu í gær að bóluefnin sem væru í notkun ættu að veita viðnám gegn veirunni en það kynni að vera veikara en gagnvart öðrum afbrigðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×