Körfubolti

Tryggði sigurinn með tveimur þristum á síðustu sekúndunum

Sindri Sverrisson skrifar
Luka Doncic fagnar sigurkörfunni með James Johnson í Dallas í nótt.
Luka Doncic fagnar sigurkörfunni með James Johnson í Dallas í nótt. Getty/Tom Pennington

Slóveninn Luka Doncic setti niður tvær þriggja stiga körfur á síðustu sextán sekúndunum og tryggði með því Dallas Mavericks sætan 110-107 sigur á Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Doncic skoraði 31 stig í leiknum, tók 10 fráköst og gaf átta stoðsendingar en hluta af frábærum tilþrifum hans má sjá hér að neðan.

Leikmenn Boston höfðu gert vel í að vinna upp 11 stiga forskot á síðustu þremur mínútum leiksins og Jaylen Brown náði að koma liðinu yfir á lokamínútunni. Doncic svaraði því með þristi þegar 15,3 sekúndur voru eftir en Brown, sem skoraði 29 stig, jafnaði metin í næstu sókn. Sigurkarfa Doncic kom svo talsvert utan þriggja stiga línunnar, þegar 0,1 sekúnda var eftir.

„Þetta er bara eitthvað sem að ég geri og hef reynt að gera,“ sagði Doncic. Hann klikkaði á þriggja stiga skoti undir lok leiks í 121-118 tapi gegn Portland Trail Blazers fyrir tíu dögum.

„Stundum hittir maður ekki, eins og í leiknum við Portland. Stundum hittir maður,“ sagði Doncic sem verður 22 ára á sunnudaginn.

Dallas er nú í 9. sæti vesturdeildar með 15 sigra og 15 töp en Boston er í 6. sæti austurdeildar með 15 sigra og 16 töp.

Harden með þrennu í sjöunda sigrinum í röð

Brooklyn Nets unnu sinn sjöunda leik í röð og Sacramento Kings töpuðu sínum áttunda leik í röð þegar Brooklyn vann 127-118 í nótt.

James Harden skoraði þrennu í leiknum, í sjötta sinn eftir komuna til Brooklyn, en hann gerði 29 stig, 11 fráköst og 14 stoðsendingar.

Brooklyn er nú með 21 sigur líkt og Philadelphia 76ers á toppi austurdeildar en hefur tapað einum leik meira, eða alls 12 leikjum.

Úrslit næturinnar:

  • Cleveland 112-111 Atlanta
  • Orlando 93-105 Detroit
  • Brooklyn 127-118 Sacramento
  • New York 106-114 Golden State
  • Toronto 102-109 Philadelphia
  • Dallas 110-107 Boston
  • Milwaukee 139-112 Minnesota
  • Denver 111-106 Portland
  • LA Clippers 135-116 Washington
NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.