Makamál

Boudoir: „Ekki fela það sem þú ert“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Ljósmyndarinn Elín Björg útskýrir hvað hugtakið boudoir þýðir í ljósmyndun og hvað það var sem fékk hana til að helga sig því. Hennar aðalstarf í dag er að taka myndir af léttklæddum eða nöktum konum á öllum aldri. 
Ljósmyndarinn Elín Björg útskýrir hvað hugtakið boudoir þýðir í ljósmyndun og hvað það var sem fékk hana til að helga sig því. Hennar aðalstarf í dag er að taka myndir af léttklæddum eða nöktum konum á öllum aldri.  Mynd - Elín Björg

„Það er rosalegur munur á nektarmyndum og því sem kallast boudoir myndir. Gjörólík hugtök, en fólk á það til að rugla þeim saman. Nektarmyndir geta oft tíðum verið listrænar myndir með áherslu á líkamann en boudoir eru feminískar myndir með áherslu á konuna sjálfa.“ Þetta segir Elín Björg Guðmundsdóttir ljósmyndari í viðtali við Makamál.

Elín Björg er 36 ára, einhleyp og búsett í Reykjavík. Hún fæddist á Íslandi en bjó í Svíþjóð frá 4-12 ára aldurs þegar hún flutti svo aftur heim til íslands.

„Ég flutti þá til Akureyrar og var þar til 16 ára aldurs. Þaðan flutti ég svo upp í sveit og var sveitastelpa til 18 ára aldurs þegar ég fluttist loks til Reykjavíkur, þar sem ég hef búið síðan.“

Áhugi Elínar á ljósmyndun kviknaði þegar hún starfaði á hvalaskoðunarbát þar sem hluti af starfinu var að taka myndir af sjávarlífinu.

Ég fann strax að þetta var eitthvað sem ég naut að gera og var alltaf fyrst til að bjóðast til að fara upp á þilfar með myndavélina, sama hvernig viðraði,“ segir Elín. Hún fór strax að æfa sig og fiktað sig áfram með myndavélina sína og stillingar þegar heim var komið.

Elín ákvað svo að fara í nám í ljósmyndun í Tækniskólanum eftir að hafa unnið sjálfstætt við ljósmyndum í um fjögur ár. Hún útskrifaðist svo þaðan á síðasta ári. 

Mynd - Elín Björg

Var ekkert erfitt að fá verkefni sem ljósmyndari áður en þú fórst í námið? 

„Það var alveg misjafnt, stundum mörg og stundum fá verkefni. En ég sótti verkefnin oft sjálf, stundum var haft samband við mig, stundum keypti ég mig inn á sýningar sem voru áhugaverðar til að tala við fólkið á bak við tjöldin eftir „show“ og bjóða þeim þjónustu mína.“

Elín segist hafa fest sig svolítið að mynda í skemmtanabransanum á þessum tíma en hún hafi fundið að hana langaði að fá fleiri vinkla inn í ljósmyndaheim sinn.

„Ég hef tekið fjölmörg námskeið í gegnum feril minn og geri það enn, en nám í skóla er allt öðruvísi. Lifandi kennsla með faglærðu fólki og bekkjarfélagar til að deila með hugðarefnum sínum.“

Átti námið vel við þig?

„Að mestu leyti en ekki öllu. Ég stækkaði mikið í náminu, lærði svo margt sem mér hefði ekki dottið í hug að læra sjálf. En ég á erfitt með að fylgja uppskriftum og það er risastór hluti af því að fara í ljósmyndanám.“

Fannst hún ekki passa í þetta kvenlega form

Elín segist hafa gengið í gegnum tímabil í sínu lífi sem hún upplifði mikil kaflaskil og fannst henni eins og hún hafi misst kynþokka sinn.

„Ég æfði rosalega mikið og fannst ég vera of stráksleg í vexti. Svo ég fór að dansa burlesque í Kramhúsinu hjá Margréti Erlu Maack og dansaði hjá henni í ár. Á æfingum fannst mér ég ekki passa í þetta kvenlega form af þokka sem ég sá í hinum konunum. Ég reyndi það sem ég gat að fjarlægjast sjálfa mig til að komast nær því sem ég hélt að ég ætti að vera til að vera þokkafull.“

Í einum tímanum segist Elín hafa fundið fyrir einskonar vakningu sem varð til þess að mikil umbreyting átti sér stað varðandi sjálfsímynd hennar og sjálfstraust.

„Margrét Erla kom til mín á einni æfingunni og sagði við mig:

Ekki fela það sem þú ert. Finndu frekar hvernig þú undirstrikar það. Og þú skalt vinna með það.

...Og ég gerði það og fann hvað ég stækkaði í sjálfri mér.“

Elín segir að þetta hafi verið byrjunin í ferlinu. Frá því að líta á sig sem strákalega stelpu í að upplifa sig sem þokkafulla konu.

„Ég vissi að fleiri konur væru á sama stað og ég var af mismunandi ástæðum og mig langaði að gefa þeim áfram þá gjöf sem ég fékk þarna. Gjöfina að sættast við sjálfa mig. Að elska líkama sinn eins og hann er og muna kynþokka sinn. Lífið vill nefnilega stundum láta okkur gleyma honum.“

Mynd - Elín Björg

Óraunhæfar kröfur á líkama of algengar

Elín talar um að konur setji allt of mikla pressu á sig þegar kemur að útliti og geri sér óraunhæfar kröfur og væntingar um líkama sinn.

Við erum of mjóar, of stórar, með öldrunarmerki, of strákslegar og þar fram eftir götunum. En við erum það bara alls ekki. Við sjáum það bara ekki sjálfar því við gleymum. Við gleymum hvað við erum þokkafullar.

Að stunda það að læra að elska sjálfa sig frá öllum vinklum með því að sjá sjálfa mig í því ljósi, breytti því hvernig ég sé mig alla daga héðan af.

Þarna segir Elín löngunina hafa fæðst til að deila þessari upplifun með öðrum konum. Hún hafi hins vegar ekki vitað hvernig hún ætti að bera sig að og deila henni.

"Ég vissi ekkert hvað boudoir var á þessu tímabili en það var ekki fyrr en í ágúst í fyrra sem ég kynntist hugtakinu og  féll kylliflöt fyrir því. Ég tók margar nætur í að stúdera þetta frá öllum vinklum og fór svo á tvö námskeið á tveimur mánuðum. Ég gróf upp boudoir-ljósmyndara í Reykjavík og tók kaffifundi með þeim. Ég pósaði fyrir framan spegil og teiknaði upp hvað gekk og hvað gekk ekki. Einnig fékk ég vinkonur mínar til að sitja fyrir.“

Mynd - Elín Björg

Boudoir listform til að efla konur

Hver er skilgreiningin á boudoir?

Boudoir er form af ljósmyndun gert til að efla konur með því að sýna þeim styrk sinn í kvenleika sínum. Listfom sem er ekki hannað til að fela hluta af þér, heldur draga fram bestu þættina. Boudoir er kynþokki, fegurð og styrkur. Boudoir er fyrir þig en engan annan.

Hvað áttu við með því að það sé ekki fyrir neinn annan?

„Það undir ÞÉR komið hvað þú gerir við myndirnar, hvort þú eigir albúm til að fletta í gegnum þegar þú efast eða til að minna þig á hvað þú ert mikilvæg gyðja. Eða hvort þú laumir þessu í jólapakkann til makans.“

Hvert sóttir þú námskeið til að kynna þér boudoir?

„Það heitir Creative Live og er í raun rosalegt safn af allskonar námskeiðum sem haldin eru af fagfólki í sínum greinum. Þar má finna kennara eins og Annie Leibowitz, Sue Bryce, Lindsay Adler og marga fleiri. Sú sem ég varð mest heilluð af er Jen Rozenbaum, en hún er boudoir ljósmyndari sem sigraðist á brjóstakrabbameini.“

Hvað er það við stílinn hennar sem heillar þig?

„Hún er eins og ég, leggur mestu áhersluna á að mynda venjulegar konur. Konur sem eru ekki fyrirsætur. Hún vill sýna konum að þær eru fullkomnar eins og þær eru og eigi ekki nokkurn tíma að þurfa að efast um það. Hún sjálf þurfti að láta fjarlægja bæði brjóstin vegna brjóstakrabba og hefur óspart myndað sjálfa sig og birt til að setja fordæmi fyrir aðrar konur. Myndirnar hennar eru léttar og ofboðslega fallegar, einlægar og fyrst og fremst sannar.“

Mynd - Elín Björg

Elín segir fáa ljósmyndara á Íslandi sérhæfa sig í boudoir-ljósmyndum en í hennar tilviki er þetta orðið hennar aðalstarf.

Já, ég er heppnasta stelpa í heiminum. Að fá að starfa við það að styrkja konur eru algjör forréttindi.

Elín segir sumar konur finna fyrir stressi fyrir myndatökurnar og því sé mikilvægt að tala saman áður og brjóta ísinn.

„Þetta er svo óljóst hugtak fyrir mörgum og getur hreinlega verið hálf óhugnanlegt fyrir konu sem þorir jafnvel ekki í sund að koma til mín og sitja fyrir nakin. En þetta eru auðvitað nánar tökur en þær eru fyrst og fremst skemmtilegar.“

Mynd - Elín Björg

Hafa konur aldrei hætt við þegar á hólminn er komið?

„Nei, það hefur ekki gerst en við spjöllum bara mikið ef þær finna fyrir óöryggi. Spjöllum um það hvað það er sem veldur og hvað þær eru óöruggar með. Það er ótrúlegt hvað við setjum miklar kröfur á okkur sjálfar og hefur veruleiki filtera og samfélagsmiðla því miður haft mikil áhrif. Við miðum okkur oft við óraunhæfar ímyndir af því sem okkur finnst við eiga að vera, En við komumst svo ekki nálægt því vegna þess að við erum bara alvöru konur, misjafnar eins og við erum margar.“

Með þeirri tækni sem við búum við í dag segir Elín að það auðveldlega hægt að birta falskar og óraunhæfar myndir af einhverju sem telst vera eftirsótt þegar kemur að útliti. En yfirleitt er þetta svo langt frá því að vera raunverulegt. 

Ég segi ekki að allir geri þetta, en þetta er því miður til og allt of mikið um það að fólki sýni falskar myndir af sér.

Mynd - Elín Björg

Hvernig tekur fólk í það að þú sért að taka myndir af nöktu kvenfólki? Finnur þú einhvern tíma fyrir fordómum eða skilningsleysi?

„Ég finn alls enga fordóma sjálf en feimni varðandi þetta er yfirleitt til staðar. Sérstaklega þangað til að fólk fær dýpri skilning á því hvað nákvæmlega við erum að vinna með í svona myndatökum. Það er rosalegur munur á nektarmyndum og boudoir sem dæmi. Alveg gjörólík hugtök, en fólk á það til að rugla þessu tvennu saman.“

Hver myndir þú segja að helsti munurinn væri á þessu tvennu?

Nektarmyndir geta oft tíðum verið listrænar myndir með áherslu á líkamann en boudoir eru feminískar myndir með áherslu á konuna sjálfa. Kannski hægt að útskýra þetta líka svolítið eins og muninn á því þegar einhver annar er að horfa á þig, sem eru þá nektarmyndir, eða þegar þú ert að horfa á þig í spegli, boudoir.

Hvaða aldur ertu að fá til þín í myndatökur?

„Frá 18 ára til 67 ára hingað til. En vonandi næ ég að hækka aldurinn eitthvað.“

Hvar geta konur nálgast þig sem hafa áhuga á því að koma í myndatöku?

„Annað hvort í gegnum heimasíðuna mína  eða bara á Instagram. Ég hvet allar konur sem hafa áhuga en kannski þora ekki bara að hafa samband og ég get þá svarað öllum þeim spurningum sem þær hafa. Það að við sem konur séum margar hverjar að fjarlægjast okkar eiginn kjarna er sorglegt en fjarri því að vera eitthvað sem ekki er hægt á snúa við aftur. Þegar spegilmyndin blekkir okkur um okkar eigin ásýnd og telur okkur trú um að við séum ekki nógu góðar, er það yfirleitt eitthvað sem við höfum tekið með okkur á lífsleiðinni og vitum ekki hvernig við losnum við. Ég hóf þetta ferðalag til að sýna konum það sem þær hafa gleymt, er höfðu allan tímann.“

 Lokaskilaboð Elínar til kvenna segir hún vera þessi: 

Ég sé þig þegar þú sérð eitthvað annað. Mig langar bara að lána þér augun mín.

Mynd - Elín Björg
Mynd - Elín Björg
Mynd - Elín Björg

Allar myndirnar eru birtar með leyfi þeirra kvenna sem sitja fyrir. 


Tengdar fréttir

„Kveikti kynorku sem var í svo miklum dvala mjög lengi“

„Þetta er ólýsanlegt og eitthvað sem við munum alltaf muna. Mjög stór þáttur í að bjarga hjónabandinu okkar.“ Þetta segir íslensk kona um reynslu sína og eiginmanns hennar af tantranuddi og tantra paranámskeiði sem þau ákváðu að prófa þegar hjónabandið var komið í þrot fyrir nokkrum árum.

Einhleypan: „Knúsbönn hafa reynt mikið á mig“

„Ég er svo mikil félagsvera og svo knúsfús kona að öll þessi samkomubönn og knúsbönn hafa reynt mikið á mig. Mér finnst ég stundum vera við hliðina á sjálfri mér,“ segir tónlistar- og leikkonan Anna Margrét Káradóttir í viðtali við Makamál.

Einhleypir undir pressu að finna ástina

Í síðustu viku var spurningu Makamála beint til einhleyps fólks. Spurt var hvort fólk fyndi fyrir einhverri pressu að eignast maka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.