Atvinnulíf

Þess virði að gefa starfsfólki von

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Munurinn á von og bjartsýni felst í því að þegar við erum vongóð erum við líklegri til að hugsa í lausnum og framkvæma strax.
Munurinn á von og bjartsýni felst í því að þegar við erum vongóð erum við líklegri til að hugsa í lausnum og framkvæma strax. Vísir/Getty

Bólusetning í augsýn gefur án efa tilefni til meiri bjartsýni framundan en áður fyrir atvinnulífið um allan heim. Rannsóknir sýna þó að það er árangursríkari leið fyrir stjórnendur að efla von hjá starfsfólki en bjartsýni. Hvers vegna?

Eða er það að vera vongóður ekki það sama og að vera bjartsýnn?

Nei þarna er nokkur munur á. 

Þegar að við erum bjartsýn erum við jákvæð og meðvituð um að bægja neikvæðum hugsunum frá. Með bjartsýni í farteskinu höfum við trú á því að okkur takist að ná markmiðum okkar.

Þegar við erum vongóð hins vegar, tökum við skrefið aðeins lengra. Í staðinn fyrir að hafa trú á því að okkur takist að ná markmiðum okkar, erum við líklegri til að kortleggja það hvernig nákvæmlega við munum ná þessum markmiðum. Hvað nákvæmlega þurfum við að gera? Hvernig ætlum við að gera það?

Stjórnendur og starfsfólk geta unnið að því að byggja upp von innan teyma og vinnustaða. Hér eru fimm ráð til þess.

1. Fyrsta skrefið er tekið strax

Í stað þess að vera einungis með skýr markmið um hvað eigi að gera og hvað sé framundan, er markmiðasetningin lögð niður þannig að við tökum fyrsta skrefið strax. Því það að vera vongóður þýðir að við framkvæmum.

2. Óvissu breytt í tækifæri

Í stað þess að vonast eftir því besta en vera meðvituð um óvissuna, er strax tekin stefna á að eyða óvissu með því að finna tækifærin.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að vonin um tækifæri getur komið okkur langt. Sem dæmi má taka fyrir niðurstöður rannsóknar sem gerð var hjá foreldrum langveikra barna. Á meðan upplýsingar um sjúkdómsgreiningu liggur ekki fyrir, hafa rannsóknir sýnt að foreldrarnir gefast ekki upp við að finna tækifærin til frekari greiningar eða aðstoðar, því mögulega gæti ný greining eða meiri upplýsingar komið barninu þeirra til hjálpar.

Þetta er sagt virka á svipaðan hátt með allt annað. Þegar við stöndum frammi fyrir óvissu en erum vongóð, einblínum á að finna hvar tækifærin í óvissunni liggja.

3. Fókusinn verður markvissari

Í ástandi eins og nú er getur það verið niðurdrepandi að fylgjast of mikið með fréttum og umræðum. Ekki síst um þá atvinnugeira sem glíma við hvað erfiðustu stöðuna í kjölfar heimsfaraldurs. Þar hjálpar að vera bjartsýnn því bjartsýnin hjálpar okkur til að draga úr því að fylgjast með því neikvæða en horfa meira á það sem jákvætt er.

Vonin tekur okkur hins vegar skrefinu lengra. Þannig hafa rannsóknir sýnt að þegar að við erum vongóð, gerist í raun það sama því við bægjum ósjálfrátt frá okkur það sem er neikvætt eða dregur úr okkur. Munurinn er hins vegar sá að við þurfum ekki að hafa eins mikið fyrir þessu. Við verðum hreinlega of upptekin af því að fókusera á tækifærin og það sem við ætlum að gera til að koma okkur á betri stað.

4. Liðsheildin og vonin um að vinna

Við sjáum það oft í pólitík, íþróttum og hjá baráttusamtökum að vonin um að vinna kemur fólki langt. Liðsheildin eflist með því að berjast fyrir einhverju saman. Að sigra. Að koma breytingum í gegn. 

Það sama gerist ef stjórnendur vinna markvisst í því að teymin þeirra upplifi þessa von. Og þegar það gerist, eflist liðsheildin því þegar vonin er fyrir hendi, á teymið auðveldara með að taka þau skref sem til þarf til að ná settum markmiðum. 

5. Gögn og staðreyndir

Þá hefur það sýnt sig að þegar vonin er fyrir hendi, styðst fólk fyrst og fremst við gögn og staðreyndir. Því það er að framkvæma (vona) frekar en einungis að trúa (vera bjartsýn) gerir það að verkum að fólk vill gera það sem gera þarf. 

Til þess að það sé hægt, þurfa gögn og staðreyndir að vera rýnd og skoðuð. Líka litlu atriðin. Því þótt útlitið virðist svart, hefur það sýnt sig að fólk sem er með von um að eitthvað gangi upp, er líklegast til að finna tækifærin.


Tengdar fréttir

Góð ráð fyrir fólk sem þolir ekki yfirmanninn

Það getur verið erfitt að vera í vinnu þar sem þú þolir ekki yfirmanninn þinn. Þetta er þó algengari staða en marga grunar. Þannig sýna niðurstöður kannana Gallup í Bandaríkjunum að þar hefur um helmingur útivinnandi fólks hætt í einhverju starfi, vegna þess að það þoldi ekki yfirmanninn. Sömu sögu er að segja frá Evrópu þar sem hlutfallið mælist hærra, sem og í Asíu, Miðausturlöndunum og Afríku.

Stjórnun 2021: „Þetta reddast“ hefur fengið nýja merkingu

Í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Atvinnulífið á Vísi má sjá að 75 prósent þeirra sem starfa í fjarvinnu myndu kjósa að vinna heiman frá sér í tvo til þrjá daga í viku. Ýmsir spá því að fjarvinna í bland við vinnu á staðnum verði framtíðarfyrirkomulag sem mörg fyrirtæki munu taka upp í kjölfar Covid. En að hverju þurfa stjórnendur að huga að ef þetta verður þróunin?

„Ekki bara sitja og hugsa heldur standa upp og fara að gera“

Tengslanetið og fjármögnun eru erfiðasti hjallinn fyrir konur í nýsköpun segja þær Fida Abu Libdeh og Sandra Mjöll Jónsdóttir, en þær eru meðal leiðbeinanda AWE viðskiptahraðalsins sem nú stendur til boða á Íslandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×