Handbolti

Íslenskir liðsfélagar þýskir meistarar í fyrsta sinn í 35 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson dansar sigurdansinn í gærkvöldi með liðsfélögum sínum.
Aron Pálmarsson dansar sigurdansinn í gærkvöldi með liðsfélögum sínum. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel tryggðu sér í gær þýska meistaratitilinn í handbolta. Kiel vann sannfærandi sex marka sigur á Guðmundi Guðmundssyni og lærisveinum hans í Rhein-Neckar Löwen, 31-25, í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar. Kiel er með fimm stiga forskot á Löwen sem er í 2. sæti en Löwen-liðið á aðeins tvo leiki eftir og getur því ekki náð Kiel.

Alfreð gerði Kiel því að meisturum í fjórða sinn á fimm árum. Kiel vann einnig þýska bikarinn og er komið í úrslit í meistaradeildinni. Það stefnir því í enn eitt frábært tímabil hjá Alfreð og lærisveinum hans.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk í leiknum og Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk. Guðjón Valur varð í kvöld þýskur meistari í fyrsta sinn á ferlinum en Aron var að vinna titilinn í þriðja sinn.

Guðjón Valur og Aron léku í gær eftir 35 ára gamalt afrek Axel Axelssonar og Ólafs H. Jónssonar þegar þeir unnu þýska meistaratitilinn sem liðsfélagar. Axel og Ólafur unnu þýska titilinn með Dankersen árið 1977. Axel skoraði þá sigurmarkið í hreinum úrslitaleik um titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×