Viðskipti innlent

Fjöldi ungmenna fær vinnu í sumar hjá sjávarútvegsfyrirtækjum

Mikill fjöldi ungmenna á aldrinum 16-23 ára fær vinnu hjá sjávarútvegsfyrirtækjum um allt land í sumar. Flest starfanna eru annað hvort í fiskvinnslu eða í umhverfisverkefnum á svæði sjávarútvegsfyrirtækjanna.

Fjallað er um málið á vefsíði LÍÚ. Þar segir að í sumar mun Samherji ráða til sín yfir 100 ungmenni, flest í landvinnslu bæði á Akureyri og Dalvík en þó munu nokkur þeirra starfa við sjómennsku.

Ásgeir Gunnarsson, útgerðarstjóri, hjá Skinney-Þinganesi á Höfn í Hornafirði segir fyrirtækið ráða um 70 manns til vinnu á aldrinum 16-20 ára. „Það er sérstaklega gaman að sjá hvað margir vilja vinna hjá okkur ár eftir ár. Hópurinn sinnir fjölbreyttum störfum í viðhaldi og fegrun umhverfisins þótt flestir vinni í störfum tengdum humarveiðum og vinnslu."

„Við náum því miður ekki að ráða alla sem sækja um en sem betur fer hefur ferðaþjónustan vaxið mikið á svæðinu undanfarin ár auk þess sem margir úr þessum aldurshópi vinna í bæjarvinnunni. Hér er því ekkert atvinnuleysi meðal þessa hóps yfir sumarmánuðina," segir Ásgeir.

„Við réðum 36 harðduglega krakka til  okkar í sumar," segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Hraðfrystihúsinu- Gunnvöru hf í Hnífsdal. „Margir þeirra hafa unnið hjá okkur áður auk þess sem foreldrar margra þeirra starfa hjá fyrirtækinu. Þau sinna ýmsum störfum, þó aðallega í vinnslu," segir Einar. Hópurinn er á aldrinum 16-23 ára.

Sömu sögu er að segja frá Neskaupstað þar sem 70 ungmenni voru nýverið ráðin til sumarstarfa hjá Síldarvinnslunni. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×