Viðskipti innlent

Erlendum ferðamönnum fjölgar um 51.000 milli ára

Brottfarir erlendra ferðamanna voru 221.600 á fyrstu fimm mánuðum ársins, samanborið við 170.600 á sama tímabili í fyrra. Jafngildir þetta aukningu upp á 30% milli ára, eða sem nemur um 51.000 ferðamönnum og er greinilegt að íslenski ferðaþjónstugeirinn hefur náð miklum árangri í að laða fleiri ferðamenn hingað til lands á jaðartíma.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ekkert lát sé á aukningu á komum erlendra ferðamanna hingað til lands, þar sem met er slegið mánuð eftir mánuð. Koma því tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna í maí sl. ekki á óvart. Fóru 53.600 erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð í maí, samanborið við 45.200 á sama tíma í fyrra. Nemur fjölgunin rúmlega 18,6% milli ára og er hér um að ræða langfjölmennasti maímánuður hvað þennan fjölda varðar frá upphafi.

„Við reiknum með að aukningin á milli ára verði heldur hægari yfir háannartímann í ferðaþjónustunni þ.e.a.s. í júní og fram í ágúst. Ef fjölgunin yrði hins vegar með líkum hætti og hún hefur verið það sem af er ári á þessu tímabili yrðu hátt í 400.000 erlendir ferðamenn hér á landi nú í júní til og með ágúst, samanborið við 300.000 í fyrra,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×