Viðskipti innlent

Enginn hagvöxtur í byrjun ársins

Óli Kristján Ármannsson. skrifar
Hagstofa Íslands hefur birt hagvaxtarmælingu með bráðabirgðatölum frá 2011.
Hagstofa Íslands hefur birt hagvaxtarmælingu með bráðabirgðatölum frá 2011. Fréttablaðið/Anton
Innan við eins prósents hagvöxtur, sem mældist fyrstu þrjá mánuði ársins, núllast ef tekið er tillit til fólksfjölgunar.

Þetta kemur fram í samantekt Greiningar Íslandsbanka. „Á fyrsta fjórðungi ársins var 0,8 prósenta hagvöxtur. Hefur hagvöxtur ekki mælst minni síðan á þriðja fjórðungi 2010, það er síðan hagkerfið fór að taka við sér eftir samdráttinn sem varð í kjölfar bankahrunsins 2008,“ segir í umfjöllun Greiningar.

„Ef tekið er tillit til fólksfjölgunar sem var 0,8 prósent á sama tímabili stóð verg landsframleiðsla í stað að raungildi.“ Hagvöxtur hafi verið núll prósent. Tölurnar eru sagðar undirstrika það sem fram hafi komið í nýlegum þjóðhagsspám, að dregið hafi úr hagvexti og útlit sé fyrir að hann verði hægur í ár.

„Þannig spáum við í þjóðhagsspá okkar sem birt var í þessari viku að hagvöxtur verði 1,2 prósent í ár eftir 1,6 prósenta hagvöxt á síðasta ári og 2,9 prósenta hagvöxt á árinu 2011.“

Að sögn Greiningar renna tölur um hagvöxt, minni einkaneyslu og samdrátt í fjárfestingu og eftirspurn stoðum undir spá um að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum þegar kemur að vaxtaákvörðun um miðja næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×