Viðskipti innlent

Áforma 36 milljarða fjárfestingu í Skaftárhreppi

Skaftá.
Skaftá. Mynd úr safni
Suðurorka áformar að fjárfesta fyrir um 36 milljarða króna í Búlandsvirkjun í Skaftártungu í Skaftárhrepp ef til þess fást leyfi. Virkjunarkosturinn gengur út að veita Skaftá neðan Hólaskjóls á Nyrðri Fjallabaksleið í göngum inn á Þorvaldsaura í lóðrétt fallgöng til neðanjarðarstöðvarhúss í Réttarfelli og veita vatninu að lokum um göng í farveg Skaftár við Búland. Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að raforkuvinnsla gætti hafist árið 2018 ef áætlanir þess ganga eftir. Áætlað uppsett afl Búlandsvirkjunar er 150 megavött og orkugeta 970 gígavattstundir á ári.

Suðurorkaer félag í helmingseigu Íslenskrar Orkuvirkjunar ehf og HS Orku hf, en nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir fjárfestu nýverið í tæplega fjórðungshlut í HS Orku. Á vegum Suðurorku hefur á tveimur síðustu árum verið unnið að undirbúningi Búlandsvirkjunar í Skaftártungu.

„Athuganir Suðurorku á arðsemi verkefnisins lofa góðu en enn hefur ekki verið leitað eftir samningum við hugsanlega raforkukaupendur enda er kosturinn eins og margir aðrir hluti 2. áfanga rammaáætlunar," segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að fyrirtækið hafi verið stofnað í kringum samninga við landeigendur og meirihluta vatnsréttarhafa til undirbúnings og virkjunar Skaftár. „Landeigendasamningarnir ganga út á að landeigendur og vatnsréttarhafar fá greidd auðlindagjöld sem nema hlutfalli af raforkusölu virkjunarinnar og fer hlutfallið hækkandi eftir því sem á samningstímann líður. Samningarnir eru sambærilegir þeim sem Íslensk Orkuvirkjun gerði við Seyðisfjarðarkaupstað vegna 9,8 MW virkjunar í Fjarðará. Auðlindagjöld landeigendasamninga Suðurorku við landeigendur í Skaftárhrepp eru reiknuð á svipaðan hátt og hæstu kröfur vatnsréttarhafa vegna Kárahnjúkavirkjunar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×