Viðskipti innlent

Krónan hjálpar efnahagslífinu

Stjórnvöld gerðu margt rangt í aðdraganda kreppunnar, segir hagfræðiprófessorinn Arne Jon Isachsen.
Fréttablaðið/Vilhelm
Stjórnvöld gerðu margt rangt í aðdraganda kreppunnar, segir hagfræðiprófessorinn Arne Jon Isachsen. Fréttablaðið/Vilhelm
Íslensk stjórnvöld gerðu margt rangt í aðdraganda efnahagshrunsins. Eftir að kreppan skall á hafa þau hins vegar gert allt rétt. Þetta fullyrðir norski hagfræðiháskólaprófessorinn Arne Jon Isachsen. Hann var meðhöfundur Þorvaldar Gylfasonar að bókinni Markaðsbúskapur, sem kom út í Bretlandi árið 1992 en hér tveimur árum síðar.

Prófessorinn segir í pistli, sem kemur út mánaðarlega og norska dagblaðið Dagens Næringsliv birtir í vikunni, íslensku krónuna gera það að verkum að efnahagslífið hafi rétt fyrr úr kútnum en ef búið væri að taka upp evru sem gjaldmiðil. Hann telur að ef Grikkir hefðu haldið sig við drökmuna sem gjaldmiðil þá hefði hún auðveldað þeim að komast í gegnum kreppuna.

Isachsen telur það hafa verið þjóðráð að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar í harðbakkann sló og setja á gjaldeyrishöft. Þá segir hann það hafa skilað góðum árangri að setja gömlu bankana á hliðina til þess eins að reisa nýja á rústum þeirra með hagfelldari og öruggari útlán en sátu eftir í þeim gömlu. Hann rifjar upp að Írar hafi beitt annarri aðferð þegar ríkið tók á sig ábyrgðir bankanna, bæði gagnvart lánardrottnum sem innstæðueigendum.

Viðbrögð við skrifum Isachsen eru blendin í athugasemdakerfi dagblaðsins á netinu. Einn lesandi skrifar að hvort sem aðferðir stjórnvalda hér séu góðar eða slæmar þá hafi Íslendingar lært eitt, og það sé að hafa ekki peninga í fyrirrúmi. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×