Viðskipti innlent

Ný fjármálamiðstöð Íslandsbanka opnar í dag

Í dag opnar Íslandsbanki nýtt útibú að Suðurlandsbraut 14 í Reykjavík. Í nýja útibúinu sameinast útibú bankans á Háaleitisbraut og Suðurlandsbraut 30, auk þess sem Íslandsbanki Fjármögnun mun flytja starfsemi sína í húsnæðið þann 11. júlí næstkomandi.  Verður því um að ræða miðstöð fjármálaþjónustu Íslandsbanka þar sem verður saman kominn hópur reynslumikilla starfsmanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Sameining útibúanna er liður í að auka hagræði í rekstri útibúanets Íslandsbanka og bjóða uppá öfluga fjármálamiðstöð á höfuðborgarsvæðinu.  Húsnæðið hefur verið mikið endurnýjað og lögð áhersla á gott aðgengi fyrir viðskiptavini.  Í nýja útibúinu verður einnig geymsluhólfamiðstöð fyrir höfuðborgarsvæðið.

Öll reikningsnúmer útibúanna beggja munu halda sér við sameininguna og því mun breytingin ekki valda neinum óþægindum fyrir viðskiptavini.  Þá verður engum starfsmönnum sagt upp.  Útibússtjóri nýja útibúsins verður Vilborg Þórarinsdóttir og aðstoðarútibússtjóri verður Guðmundur Kristjánsson, en þau hafa áratuga reynslu í banka og fjármálastarfsemi.

Í tilefni opnunar útibúsins verður haldin opnunarhátíð í dag þar sem boðið verður uppá kaffiveitingar, lifandi tónlist og blöðrur og glaðning fyrir börnin.

„Með þessari sameiningu útibúanna á nýjum stað, auk þess sem Íslandsbanki Fjármögnun flytur í húsnæðið, er ætlunin að búa til fjármálamiðstöð sem veitir bæði fyrirtækjum og einstaklingum öfluga fjármálaþjónustu.  Þetta er liður í því að hagræða og svara síauknum kröfum viðskiptavina okkar um víðtæka fjármálaþjónustu.    Það er mín trú að þessi sameining sé mikið tækifæri til að bæta og efla okkar þjónustu og ekki síst að sækja fram,” segir Una Steinsdóttir, framkvæmdarstjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×