Viðskipti innlent

Hefur ekki áhyggjur af gengi krónunnar í útboðum

Fleiri vildu losa sig við krónur en eignast þær í fyrsta gjaldeyrisútboði Seðlabankans, en seinni legg útboðsins lauk í gær. Aðstoðarseðlabankastjóri segir lágt gengi krónunnar í útboðinu ekki áhyggjuefni.

Í byrjun júní bauðst Seðlabanki Íslands til að kaupa aflandskrónur með greiðslu í evrum. Í gær fór svo fram útboð þar sem bankinn keypti evrur með greiðslu í krónum, nánar tiltekið íslenskum ríkisskuldabréfum í bundnu eignarhaldi. Þannig hefur bankinn leitt saman eigendur króna sem vilja út úr landinu og eigendur gjaldeyris sem vilja inn í landið í tveimur skrefum, en þetta er liður í losun gjaldeyrishafta.

Í fyrri legg útboðsins var framboð króna margfalt á eftirspurnina í útboðinu í gær, en seðlabankinn tók tilboðum fyrir rúmlega 60 milljónir evra en barst tilboð fyrir rúmlega 70 milljónir. Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir að þátttakan hafi verið mest hjá lífeyrissjóðum. Gengið sem viðskiptin fóru fram á var 210 krónur fyrir evruna, en það var hámarksverð sem seðlabankinn var tilbúinn að greiða fyrir evruna - með öðrum orðum var það lægsta gengið á krónunni sem seðlabankinn var tilbúinn að sætta sig við. Arnór segir þó að það sé ekki áhyggjuefni.

„Nei, það er í sjálfu sér ekki áhyggjuefni. Það var búist við því að þetta yrði nokkuð samþjappað við þetta mark. Það hefði auðvitað getað farið öðruvísi, en þetta var alltaf talið líkleg útkoma," segir Arnór.

Spurður hvort það sé ófagur vitnisburður um trúnna á krónuna að eftirspurnin hafi ekki verið meiri, eða við sterkara gengi, segir Arnór:

„Ég get ekki tekið undir það að þáttakan hafi verið lítil. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa í huga að bæði kaupendur og seljendur líta á þetta sem ferli sem mun að líkindum halda áfram. Þessir aðilar munu áfram taka þátt í næstu útboðum."

Þannig segir Arnór að menn veðji ekki öllu sínu á fyrsta útboðið, heldur stilli eftirspurnina af miðað við það sem er í boði og taki áfram þátt í næstu skrefum. Nú verði sest yfir niðurstöður fyrstu útboðanna. Hann segir að gera megi ráð fyrir að tilkynnt verði um annað útboð fljótlega, en hann telur að fyrstu útboðin lofi góðu um framhaldið og þátttaka verði góð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×