Viðskipti innlent

Stefna að 29 milljörðum í hlutafjárútboði

Andri Eysteinsson skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. Vísir/Egill

Markmið fyrirhugaðs hlutafjárútboðs Icelandair Group er að safna rúmlega 29 milljörðum króna í aukið hlutafé. Stjórn félagsins mun leggja tillögu þess efnis fyrir hluthafafund í næsta mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var Kauphöllinni í kvöld.

„Stjórn félagsins mun einnig óska eftir því að núverandi hluthafar gefi eftir forgangsrétt á nýútgefnum bréfum í félaginu. Útboðið verður þannig opið almenningi sem og fagfjárfestum. Stjórn mun taka ákvörðun um úthlutun hluta en leitast verður við að skerða ekki úthlutun til núverandi hluthafa og starfsmanna, segir í tilkynningunni. Í tillögu stjórnar verður lagt til að gefin verði út 30.000 milljón ný hlutabréf.

Hlutafjárútboðið er sagt mikilvægur liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins en auk útboðsins mun möguleikinn á því að breyta skuldum í hlutafé vera kannaður.

Ríkisstjórnin lýsti sig í dag tilbúna að koma til aðstoðar með aðkomu að lánalínum með ríkisábyrgð komi til þess að Icelandair takist að safna hlutafénu sem stefnt er að.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×