Umfjöllun og viðtöl: ÍR - KA 34-22 | Akureyringar niðurlægðir

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára

ÍR vann KA 34-22 í kvöld í Olís deild karla í handbolta. Deildin er búin að vera í fríi rúman mánuð útaf Evrópumeistaramótinu svo þetta var fyrsti leikur liðanna á nýju ári. KA sýndu smá lífsmark í fyrri hálfleik en ÍR völtuðu síðan yfir þá í seinni hálfleik.

ÍR settu strax tóninn í upphafi leiks en þeir komust fljótt 5-2 yfir í leiknum. KA bitu eitthvað smá frá sér í fyrri hálfleik en eftir lélegan loka kafla voru þeir samt undir 18-14 í hálfleik. Loka mark fyrri hálfleiks var sérstaklega dýrt fyrir KA en Arnar Freyr Guðmundsson skoraði úr beinu fríkasti eftir að leiktíminn kláraðist.

Vörnin hjá ÍR þjappaði sér saman í upphafi seinni hálfleiks. ÍR náðu sér fljótt í tæplega 10 marka forystu og þeir gjörsamlega afgreiddu þennan leik í seinni hálfleik. Mjög sanngjarn ÍR sigur á móti KA-liði sem getur ekki átt marga svona leiki í vetur ef þeir ætla sér í úrslitakeppnina.

Af hverju vann ÍR? 

ÍR voru mikið betri í öllum þáttum leiksins í kvöld það er ekki flóknara en það. Þeir voru grimmir sóknarlega og þorðu að sækja á vægast sagt brothætta vörn hjá KA. Auk þess var vörnin frábær í seinni hálfleik og bjó til slatta af hraðaupphlaupsmörkum.

Hverjir stóðu upp úr? 

Sveinn Andri Sveinsson átti stórkostlegan fyrri hálfleik en spilaði síðan minna í seinni. Hann skoraði 6 mörk úr 6 skotum, gaf 3 stoðsendingar og var með 4 löglegar stöðvanir í vörninni. Hann var mjög duglegur að taka hraða miðju sem gaf ÍR-ingum ódýr mörk í byrjun þegar KA áttu ennþá smá séns.

Hafþór Már Vignisson átti sömuleiðis rosalegan leik fyrir ÍR en hann skoraði 10 mörk úr 15 skotum og var með 8 löglegar stöðvanir. Hafþór nýtti sér allar glufur sem mynduðust í vörn gestanna og á hrós skilið fyrir sinn leik. Bergvin og Þrándur voru báðir flottur bæði í þristunum í vörninni og sóknarlega. Bergvin skoraði auk þess eitt af skemmtilegri mörkum tímabilsins en þið verðið að horfa á seinni bylgjuna til að sjá það.

Hvað gekk illa?

Bara allt hjá KA liggur við. ÍR áttu kafla í fyrri hálfleik þar sem þeir misstu dampinn smá varnarlega en annars leyfum við bara KA að eiga þessa efnisgrein.

Tölfræði sem vekur athygli: 

  • KA töpuðu boltanum 17 sinnum í leiknum. 
  • KA voru bara með 17% markvörslu í leiknum. 
  • ÍR voru með 76% skotnýtingu í leiknum.Hvað gerist næst?



KA taka á móti HK á laugardaginn en ÍR-ingar fara í Garðarbæinn sama dag. ÍR-ingar gætu með sigri í þeim leik náð Aftureldingu og komist yfir Val en Valur og Afturelding eiga einmitt innbyrðis leik á sunnudaginn.

Jónatan:Við vorum teknir í kennslustund

„Seinni hálfleikurinn var ekki góður. Það var keyrt yfir okkur hérna í seinni hálfleik, ” sagði Jónatan Þór Magnússon annar af þjálfurum KA eftir leik kvöldsins um frammistöðu KA í seinni hálfleik. KA töpuðu seinni hálfleiknum ansi stórt og voru langt frá sínu besta formi. 

Fyrri hálfleikur var ekki það slæmur hjá KA en seinni var alveg hræðilegur. Jónatan hafði lítið gott að segja um leik liðsins í seinni hálfleik. 

„Við vorum að spila ágætan sóknarleik í fyrri hálfleik. Siggi varði vel úr dauðafærum hjá okkur í byrjuninni. Sóknarleikurinn í fyrri hálfleik var fínn en við náðum fáum stoppum í vörn. Í seinni hálfleik erum við í brasi bæði með að skora en síðan veit ég líka ekki hvað þetta voru mörg hraðaupphlaupsmörk sem við fengum á okkur. Seinni hálfleikurinn almennt var bara slakur.” 

ÍR skoruðu mark úr beinu fríkasti í lok fyrri hálfleiks eftir að tíminn kláraðist. Varnarveggurinn var vægast sagt illa settur upp en hann var ekki beint af æfingasvæðinu eins og sumir myndu kalla það.

„Við ætluðum okkur ekki að fá skot í gegn. Það hafði vonandi ekki svo mikil áhrif að við þurftum að byrja seinni hálfleikinn svona. Við vorum í rauninni bara teknir í kennslustund. ÍR-ingar voru mjög sprækir eins og við vissum. Við ætluðum að mæta þeim með baráttu. Við ætluðum að spila 3-2-1 í vörninni. Við ræðum mjög illa við Svein Andra, hann skoraði bæði úr hröðum miðjum og einn á móti einn. Við ætluðum að vera sterkari á hann og það gekk ekki. Hægt og rólega þá molnaði þetta hjá okkur. Þetta var eðlilega ekki það sem við ætluðum okkur að gera.” 

ÍR voru mjög góðir í þessum leik í að taka hraðar miðjur og bæta þannig við mörkum. KA áttu það til að fagna mörkum og dóla sér á leiðinni aftur í vörn. 

„Við vorum klárlega of hægir tilbaka. Það er í rauninni bara þannig. Þetta er eitthvað sem á bara ekki að vera hægt ef menn eru með kveikt á öllum perum. Það var einn partur af mörgum sem var ekki í lagi í okkar leik í dag.” 

Vegna skorts á betra orði spurði undirritaður hvort það væri haustbragur á KA liðinu. Frammistaða liðsins minnti á eitthvað sem maður er vanur að sjá á undirbúningstímabilinu en bæði lið eru einmitt ný búin með auka stutt undirbúningstímabil í janúar. 

„Það var haustbragur hjá okkur en ekki hjá ÍR, það er ljóst. Eins og ég segi ef við eigum ekki góðan leik á móti ÍR þá er það bara þannig að ÍR-ingarnir refsa okkur bara. Hvort það sé haustbragur eða hvað sem það er þá tókst okkur ekki það sem við ætluðum að gera. Til þess að vinna ÍR í Breiðholtinu þurfum við að eiga algjöran toppdag og við vorum heilt yfir bara langt frá því í dag.” 

Bjarni: Skemmtilegra að vinna með 12

„Þetta var bara flott. Ég er mjög ánægður með hvernig við héldum dampi í gegnum allan leikinn. Við sóttum stórt forskot í lokin. Þessi leikur hefði getað endað með 6 marka mun en það er skemmtilegra að vinna með 12,” sagði Bjarni Fritzson þjálfari ÍR í viðtali eftir leik kvöldsins. 

Bergvin Þór Gíslason leikmaður ÍR skoraði skrautlegt mark á lokamínútu leiksins. Hann snéri sér í hring í loftinu áður en hann kastaði boltanum í markið og skoraði úr hraðaupphlaupi.

„Við erum ekki mikið að æfa þetta. Þetta var bara gaman að sjá. Við erum reyndar alltaf með mjúkboltamót í október. Þá færðu tvö mörk fyrir svona. Hann hefur mögulega gert þetta einhvern tímann þar.” 

ÍR-ingar komu rosalega einbeittir út í seinni hálfleikinn. KA skoruðu bara 1 mark á fyrstu 10 mínútum seinni hálfleiks en ÍR lokuðu vel á þá. 

„Um miðbik fyrri hálfleiks datt vörnin aðeins niður. Við vorum að spila frábæran sóknarleik í fyrri hálfleik. Jovan heldur þeim algjörlega á floti með góðum vörslum. Siggi var reyndar góður í byrjun en við náðum að bæta vörnina mikið í seinni hálfleik. Þeir voru í svakalegum vandræðum. Við náðum góðum tökum á leiknum og vorum með þá allan tímann. Mér fannst við eiga að vera með stærra forskot í hálfleik miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Það voru slök mörk sem við fengum á okkur á köflum en við lokuðum á það í hálfleik.” 

Er þetta ekki örugglega svona frammistaða sem þið viljið byggja á og taka með ykkur inn í næstu leiki?

„Ég er bara virkilega ánægður. Markmiðið var náttúrulega að koma dálítið ferskir inn í deildina. Það eru margir mikilvægir leikir framundan. Það er mikilvægt að vera í góðu leikformi fannst mér. Mér fannst við líta ágætlega út í dag og við tökum það með okkur í næstu leiki.”

Hafþór: Frábær leið til að byrja árið

„Frábær leið til að byrja árið. Sérstaklega gott að ná svona frábærum leik í alla staði,” sagði Hafþór Már Vignisson hægri skytta ÍR eftir leikinn.

Hafþór kom til ÍR í sumar frá Þór en hann er uppalinn í Þorpinu. Þórsarar hafa oftast mjög gaman af því að vinna KA myndi maður halda. 

„Ég ætla allavega ekki að segja að það sé eitthvað leiðinlegt að vinna KA. Það er gott að alast upp í Þorpinu.” 

Hafþór átti stórleik en hann skoraði 10 mörk auk þess var hann með 8 löglegar stöðvanir í vörninni. Hafþór var duglegur að brjótast í gegnum vörnina úr skyttu stöðinni og komast upp að markteignum. 

„Ég byrjaði ekkert sérstaklega vel. Ég var að nýta mér opnanir sem aðrir búa til. Þeir voru að spila framarlega og við nýttum okkar það.” 

ÍR-ingar geta ekki annað en verið sáttir með þessa byrjun. Eftir rúmlega mánaðarfrí frá keppnisleikjum hljóta þeir að hafa getað æft vel fyrir þennan leik og næstu leiki.

„Við þurfum að halda áfram að bæta okkar leik. Það er ennþá ýmislegt sem við þurfum að bæta til þess að við getum tekið næstu skref. Við erum í þessu til þess að vera alltaf að taka skref fram á við. Þetta var klárlega skref í áttina sem við viljum fara.” 

ÍR-ingar eru búnir að eiga gott tímabil hingað til en þeir eru í 4. sæti. Fyrir tímabilið var þeim ekki spáð svona hátt en þeir hafa farið framúr væntingum margra spekinga. Þá verður maður að spyrja sig hver eru markmiðin hjá ÍR. 

„Það er ekkert endastopp á okkur. Við getum farið eins langt og við viljum.” 

Er markmiðið semsagt deildar og síðan Íslandsmeistaratitillinn?

„Markmiðið er að vinna alla leiki sem eftir eru. Það verður síðan bara að koma í ljós hvernig það fer.”

Patrekur: Seinni hálfleikur var bara soft

„Þetta er vægast sagt svekkjandi. Við lögðum upp með að gefa þeim töluvert betri leik en þetta, ” sagði Patrekur Stefánsson leikmaður KA um leik kvöldsins.

Þetta var fyrsti keppnisleikur KA í meira en mánuð. Eins og hjá öllum hinum liðunum í deildinnier búið að vera EM frí hjá þeim. 

„Það eru allir búnir að bíða spenntir eftir að byrja aftur að spila handbolta. Seinni hálfleikur var bara soft og lélegur.” 

ÍR skoraði beint úr fríkasti í lok fyrri hálfleiks. Það var ansi slæm leið til að enda hálfleikinn og þetta mark setti á einhvern hátt tóninn fyrir seinni hálfleikinn.

„Ég held að það hafi verið mér að kenna meiri segja en svona er þetta bara.” 

Athyglisvert atvik átti sér stað í leik kvöldsins þegar stuðningsmaður KA var rekinn út úr húsi. Stuðningsmaðurinn á að hafa sagt eitthvað ljótt við dómarana sem olli því að þeir stoppuðu leikinn þangað til að hann var farinn út. Patrekur vildi ekki tjá sig um málið.

„Ég ætla ekki að tjá mig um þetta en vissulega veit ég hver þetta er.” 

Þið ætlið ekki að spila svona út tímabilið er það?

„Við verðum bara að svara aftur. Við erum allir graðir í það að koma sterkari til leiks á laugardaginn. Frammistaðan var ekki boðleg í dag, sérstaklega í síðari hálfleik.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira