Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag rikissjóðs stöðugt í 380 punktum

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs hefur lækkað nokkuð á undanförnum vikum og nú í morgun stóð álagið til 5 ára í 380 punktum (3,82%). Jafnframt hafa sveiflurnar verið mun minni síðustu daga en oft áður, auk þess sem gildi þess hefur haldist í kringum 380 punkta nokkra daga í röð en það hefur ekki gerst síðan í nóvember á síðasta ári.

Þetta kemur fram í Moergunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að lægst hafi skuldatryggingaálag ríkissjóðs farið niður í 338 punkta frá því að bankahrunið skall á og var það einmitt í nóvemberbyrjun í fyrra.

Ekki er úr vegi að ætla að þessa þróun á áhættuálaginu á ríkissjóð megi rekja til tilkynningar síðastliðinn föstudag frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) um að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands væri loksins komin á dagskrá hjá framkvæmdastjórn AGS enda er ekki hægt að rekja hana til almennrar þróunar. Þannig hefur bæði áhættuálagið á mörgum öðrum ríkjum verið að hækka á sama tíma, sem og sveiflast meira. Má hér nefna áhættuálagið á Grikkland sem og einnig á öðrum evruríkjum sem glíma við mikinn halla á opinberum fjármálum.

Þannig hefur skuldatryggingaálagið á Grikkland hækkað úr 364 punktum í 437 punkta frá því í byrjun vikunnar, eða sem nemur um 73 punktum. Álagið á Grikkland er enn mun hærra en áhættuálagið á Ísland, en það gerðist í fyrsta sinn í síðustu viku. Verulegt flökt hefur einkennt skuldatryggingaálag gríska ríkisins að undanförnu enda hafa fá ríki fengið jafn mikla umfjöllun, og þá neikvæða, um stöðu efnahagsmála en einmitt hið gríska.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×