Atvinnulíf

Starfsframinn: Tíu ráð fyrir þá sem vilja ná lengra

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Að vilja ná lengra í starfsframa krefst undirbúnings og vinnu.  Tíu góð ráð fyrir þá sem vilja ná lengra.
Að vilja ná lengra í starfsframa krefst undirbúnings og vinnu. Tíu góð ráð fyrir þá sem vilja ná lengra. Vísir/Getty

Að vilja ná lengra í starfi krefst undirbúnings og vinnu. Ekki síst vegna þess að það eru alltaf fleiri sem sækjast eftir því sama. Í nýlegu viðtali Vísis við ráðgjafa hjá Hagvangi og Capacent, kom meðal annars fram að það eru alltaf fleiri sem vilja í stjórnendastörfin miðað við þann fjölda fólks sem er að falast eftir slíkum störfum. 

Mikið hefur verið skrifað um það erlendis, hvernig best er að bera sig að ef fólk vill ná lengra í starfsframa. Forbes fékk til dæmis fimmtán einstaklinga í stjórnunarstörfum til að gefa fólki ráð. Eitt ráðið var að fólk máti sig við það sem á ensku er kallað ,,gig" hagkerfið.  Það gengur út á að fyrirtæki eru í auknum mæli að ráða fólk í sérhæfð verkefni, tímabundið eða lausráðið.

Sama þróun hefur verið á Íslandi þar sem æ fleiri starfa sem ráðgjafar eða verktakar í einstökum verkefnum. Fyrir fólk sem hugar að starfsframanum er gott að máta sig við þetta hagkerfi og velta því fyrir sér í hverju þeirra út selda vinna fælist, ef viðkomandi starfaði sjálfstætt.  Hver væri þín sérstaða ef þú seldir þig út sem sjálfstæðan ráðgjafa?  Í hverju fælust verkefnin sem þú værir að sinna? 

Að svara þessum spurningum, getur komið fólki nokkuð langt í að skilgreina í hverju styrkleikarnir liggja eða hvar ástríðan er mest. 

Einnig: Stjórnendastörf 2020: Árið í ráðningum fer vel af stað

Hér eru tíu algeng ráð fyrir þá sem huga að starfsframanum og vilja ná lengra.

1. Taktu frá tíma fyrir undirbúning.

Ef þú ætlar þér að stofna þitt eigið fyrirtæki, taktu frá tíma til að hefja undirbúning og gera ráðstafanir. Ef þú mögulega getur lagt eitthvað fyrir þá er mælt með því enda mun það koma sér vel að vera með smá fjármagn þegar stóra skrefið er tekið.

Ef ætlunin er að ná lengra með því að skipta um starf, er mikilvægt að huga strax að tengslanetinu. Hverja þú þarft að nálgast eða virkja kynnin við miðað við þann geira sem þú vilt starfa í.

2. Að sýna sig og sjá aðra.

Staðreyndin er sú að það skiptir máli hverja þú þekkir og hvert orðsporið þitt er.  Ekki síst í litlu samfélagi eins og Íslandi. Að sýna sig og sjá aðra er markmið sem gott er að huga að. Góð leið er til dæmis að taka þátt í fjölmennum viðburðum eða fundum sem atvinnulífið stendur fyrir eða sá geiri sem þú hefur áhuga á að koma þér betur á framfæri. 

Að nýta tengslanetið, skilgreina markmiðin sín og vanda sig á samfélagsmiðlum skiptir máli ef ætlunin er að ná langt í starfi.Vísir/Getty

3. Samfélagsmiðlarnir.

Uppfærðu prófílinn og vertu vakandi yfir því hvað þú birtir á samfélagsmiðlum eins og Facebook. Skráðu þig á LinkedIn ef þú ert ekki þegar þar og reyndu að tengjast áhugaverðu fólki eða stjórnendum í þeim geira sem þú hefur áhuga á.

4. Vertu með markmiðin á hreinu.

Skrifaðu niður markmiðin þín. Skrifaðu líka niður í hverju styrkleikarnir þínir eru fólgnir og hvernig þeir nýtast í starfi.

5. Settu sjálfan þig í bílstjórasætið.

Hvort sem þú vilt stöðuhækkun eða að sækjast eftir nýju starfi byggir árangurinn allur á því hvernig þér sjálfum tekst til. Að bíða eftir því að eitthvað gerist eða einhver annar sjái til þess að þín markmið náist er því ekki valkostur. Þú þarft að stýra ferðinni og hér er því gott að búa til áætlun þannig að það sé þér sýnilegt hvernig þú ætlar að ná markmiðunum.

6. Ferilskrá, kynningarbréf og lyfturæða.

Þótt þú sért ekki að sækja um starf, skaltu undirbúa þig vel með því að útbúa góða ferilskrá og kynningarbréf. Æfðu lyfturæðuna um sjálfan þig.

7. Taktu skrefin, ekkert hik!

Þegar á reynir þarf stundum að demba sér í djúpu laugina og það er einmitt á því stigi sem margir hika eða gera ekki neitt. Eitt þekkt atriði er að sækja ekki um áhugaverð störf vegna þess að fólk telur sig ekki uppfylla öll hæfisskilyrði upp á tíu, bara flest. Ef markmiðið er að ná lengra í starfsframa, þarf að þora að slá til.

8. Hugsaðu út fyrir boxið.

Það er ekkert eitt draumastarf til fyrir þig. Ef þú vilt ná lengra, þarftu mögulega að hugsa út fyrir boxið og velta fyrir þér störfum, tækifærum eða starfsvettvangnum sem eru eitthvað öðruvísi en bara bein leið á toppinn.

9. Ekki gefast upp.

Að ætla sér góðan árangur í starfsframa krefst seiglu. Það þýðir ekkert að gefast upp, þótt hlutirnir taki lengri tíma en þú sást fyrir þér eða jafnvel fleiri atvinnuviðtöl.

10. Hvers vegna viltu breyta?

Þú þarft að vera með ástæðurnar á hreinu, hvers vegna þú vilt breyta til í starfi eða skipta um starfsvettvang. Þetta er í rauninni naflaskoðun sem þú þarft að fara í með sjálfum þér. Enda nýtist þessi undirbúningur vel því mjög líklega mun einhver spyrja þig á leiðinni, hvers vegna þú tókst ákvörðun um að skipta um starf, sækja um starf eða breyta.

Einnig: Ætti ég að skipta um starf? Þrjú atriði til umhugsunar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×