Atvinnulíf

Ætti ég að skipta um starf? Þrjú atriði til umhugsunar

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Gott er að undirbúa sig vel áður en ákvörðun er tekin um að skipta um starf.
Gott er að undirbúa sig vel áður en ákvörðun er tekin um að skipta um starf. Vísir/Getty

Í dag er mun algengara en áður að fólk færi sig um set í starfi.  Sumir miða jafnvel við einhvern ákveðinn starfstíma á hverjum vinnustað, t.d. 5-7 ár eða 10.  Erlendis er jafnvel ráðið í starf þar sem tilkynnt er um það fyrirfram að viðkomandi geti ekki starfað lengur en í 10 ár að hámarki. 

Stundum vill fólk skipta um starf til þess að þróa sjálfan sig áfram.  Stundum vegna þess að það er óánægt þar sem það er. 

Hér eru þrjú atriði sem gott er að hugleiða vel áður en ákvörðun er tekin.

 

  1. Hvers vegna viltu hætta? 

Á sínum tíma samþykktir þú að taka að þér starfið sem þú ert í núna.  Á þeim tíma fannst þér starfið spennandi.  Hvað hefur breyst síðan þá? 

Hugleiddu þetta því ef svarið felst eingöngu í ,,af því bara“ eða að þér finnist eitthvað ,,leiðinlegt“ máttu líka velta fyrir þér þínu eigin viðhorfi því vinna og starfsframi krefst þrautseigju. 

Ef þú upplifir það hins vegar að starfið sé ekki lengur áskorun fyrir þig eða tilfinningin um stöðnun er orðin viðvarandi, er ástæða fyrir þig að skoða nýtt starf.

 

  1. Var verið að breyta einhverju? 

Flest fyrirtæki þurfa að fara í gegnum breytingar á einhverjum tímapunkti.  Þær geta verið misstórar, misauðveldar og jafnvel falið í sér breytingar sem þér er alls ekki að skapi. 

Ef fyrirtækið sem þú starfar hjá er nýbúið að fara í gegnum breytingar, er ágætt að hugleiða það vel hvort þú hafir gefið þeim breytingum tækifæri á að sanna sig áður en þú dæmir þær alveg ómögulegar.  Verður þetta kannski ágætt einhvern tímann?

Oft er gott að leyfa smá tíma að líða áður en tekin er ákvörðun um að hætta í starfi vegna breytinga.

 

  1. Hvað muntu fá í staðinn? 

Hér gildir orðatiltækið ,,er grasið örugglega grænna hinum megin?“ Hugleiddu þetta vel áður en þú tekur ákvörðun.  Til dæmis væri ágætt að skoða atvinnuauglýsingar, sjá hvaða störf eru í boði og punkta niður hverju þú telur þig helst leita eftir.

Eins er ágætt að hugleiða hver fórnarkostnaðurinn er því hann er alltaf einhver.  Með fórnarkostnaði er átt við eitthvað sem án efa efla fylgir núverandi starfi þínu og þér finnst jákvætt.  Það gæti verið vegalengdin á milli heimilis og vinnu, einhver sveigjanleiki í verkefnum eða vinnutíma sem ekki býðst alls staðar o.s.frv.

Ef þú tekur síðan ákvörðun um að skipta um starf er ágætt að fara að vinna í ferilskrá.  Eins að taka ákvörðun um hvort þú viljir hefja atvinnuleitina, áður en þú segir upp.    

Með því að hugleiða vel hlutina áður en ákvörðunin er tekin, eykur þú líkurnar á að verða einbeittari og skilvirkari í ferlinu sem framundan er.   Gangi þér vel!


Tengdar fréttir

Að setja sér markmið í starfi 2020: Þrjár skotheldar leiðir

Fyrir hvað viltu vera þekkt/þekktur í starfi? Hvaða fimm atriði stóðu uppúr hjá þér árið 2019? Rúna Magnúsdóttir stofnandi The Change Makers hvetur fólk til að setja sér persónuleg markmið í starfi fyrir árið 2020.

Stjórnendastörf 2020: Árið í ráðningum lítur vel út

Fyrirtæki gera kröfur um að fólk sem ráðið er í stjórnunarstörf sé vel upplýst um nýjungar í rekstri og atvinnulífi, hér heima og erlendis. Kynjahlutföll skipta meira máli nú en áður. Hreyfingar í stjórnunarstörfum endurspegla ekki alltaf sömu sveiflur og í efnahagslífinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×