Innlent

Tveir með réttarstöðu sakbornings vegna vélsleðaferðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi við Langjökul en afar lítið skyggni var á svæðinu og mjög slæmt veður.
Frá vettvangi við Langjökul en afar lítið skyggni var á svæðinu og mjög slæmt veður. vísir/landsbjörg

Tveir starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland eru með réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglu á vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins í janúar.

Ríkisútvarpið greinir frá og haft er eftir Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Suðurlandi að annar starfsmaðurinn sé almennur starfsmaður fyrirtækisins en hinn sé rekstraraðili.

Kalla þurfti út björgunarsveitir í umsvifamikið útkall þegar 39 ferðamenn auk tíu leiðsögumanna fyrirtækisins urðu veðurtepptir vegna ófærðar og óveðurs við Langjökul í janúar. Von var á slæmu veðri á svæðinu en seinkanir á ferðinni gerðu það að verkum að ferðin færðist inn í óveðrið. Töluverðan tíma tók að koma ferðamönnunum í skjól.

Forsvarsmenn fyrirtækisins viðurkenndu að hafa gert mistök með því að fara í ferðina og báðu þeir alla hlutaðeigandi aðstoðar vegna málsins.

Lögregla hefur rannsakað hvort að athæfi fyrirtækisins teljis saknæmt. Á vef RÚV kemur fram að rannsókn málsins sé á lokametrunum og verði gögn málsins send til ákærusviðs. Starfsmenn þar muni fara yfir gögnin og meta hvort tilefni sé til þess að gefa út ákæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×