Innlent

Starfsfólki Landakots boðin sálgæsla: „Þetta hefur reynt gríðarlega á starfsmenn“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Guðný Valgeirsdóttir, forstöðumaður öldrunarlækninga á Landspítalanum, segir hópsýkinguna á Landakoti hafa tekið gríðarlega á starfsmenn.
Guðný Valgeirsdóttir, forstöðumaður öldrunarlækninga á Landspítalanum, segir hópsýkinguna á Landakoti hafa tekið gríðarlega á starfsmenn. MYND/LANDSPÍTALI

Starfsmönnum á Landakoti hefur liðið gríðarlega illa vegna hópsýkingarinnar að sögn forstöðumanns öldrunarþjónustu Landspítalans. Öllum hafi verið boðin sálgæsla vegna áfallsins.

Alls hafa nú þrettán manns látist í kjölfar hópsýkingarinnar á Landakoti. Í heildina smituðust fimmtíu sjúklingar og eru fjórir enn með Covid-19.

Hópsýkingin var gríðarlegt áfall fyrir yfirmenn og alla starfsmenn á Landakoti að sögn Guðnýjar Valgeirsdóttur, forstöðumanns öldrunarþjónustu Landspítalans.

„Eins og gefur að skilja þá hefur þetta reynt gríðarlega mikið á starfsfólk á Landakoti að fara í gegn um þessa hópsýkingu og við höfum reynt að standa vel saman og það hefur verið ótrúlegur samtakamáttur. Þetta var okkur mikið áfall og tekur okkur mjög sárt,“ segir Guðný. 

Það hafi verið sérstaklega erfitt að vera í aðstæðunum. Stuðnings- og ráðgjafateymi Landspítalans hafi aðstoðað fólkið. „Við settum inn sálgæslu og sálfræðiviðtöl fyrir þá sem veiktust og einnig þeir sem voru á staðnum hafa fengið stuðning frá Landspítalanum og það hefur hjálpað mjög mikið,“ segir Guðný. 

Fimmtíu starfsmenn Landakots smituðust af veirunni. „Mannauðurinn er okkur gríðarlega verðmætur og dýrmætur og það er gríðarlega mikilvægt að fá þetta fólk aftur til baka,“ segir Guðný. Hugur starfsfólks sé hjá aðstandendum sjúklinganna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×