Erlent

Kjötlaust tvo daga vikunnar í Danmörku

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mötuneyti hins opinbera verða að elda eitthvað annað en þetta tvo daga vikunnar.
Mötuneyti hins opinbera verða að elda eitthvað annað en þetta tvo daga vikunnar. EPA/ZURAB KURTSIKIDZE

Ekkert kjöt verður á boðstólunum í mötuneytum danskra ríkisstofnanna tvo daga í viku ef ný innkaupastefnastefna danskra stjórnvalda er samþykkt. Þá mætti ekki bjóða upp á lamb eða naut oftar en einu sinni í viku. 

Danska ríkisútvarpið greindi frá og hafði eftir fjármálaráðherranum Nicolai Wammen að vonandi verði tekið vel í breytingarnar, þær séu hugsaðar til að berjast gegn loftslagsbreytingum.

„Þetta er ein leið sem við viljum fara til þess að minnka kolefnisfótspor okkar, að hafa ekkert kjöt tvo daga vikunnar í ríkismötuneytum. Aðra daga má svo fá sér kjöt ef maður vill,“ sagði Wammen.

Breytingarnar myndu ná til um 85.000 starfsmanna. Þá er búist við því að ríkishlutafélög muni fylgja stefnunni í framhaldinu en hjá þeim starfa um 75.000 manns. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×