Innlent

Skilin færast norð­austur yfir landið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Veðurhorfur á landinu um hádegisbil í dag.
Veðurhorfur á landinu um hádegisbil í dag. Veðurstofa Íslands/Skjáskot

Skilin sem valdið hafa allhvassri suðaustanátt með rigningu sunnan- og vestanlands en hægari vindi og þurrara veðri í öðrum landshlutum munu færast norðaustur yfir landið í dag. Þó mun draga úr þeim þegar líður á daginn. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í kvöld má búast við fremur hægri vestanátt og skúrum um vestanvert landið, en leifar skilanna munu ekki yfirgefa Austurland fyrr en um hádegi á morgun. Þá er útlit fyrir norðvestan stinningsgolu eða kalda á morgun. Eitthvað hvassara verður framan af degi suðaustalands. Eins mun draga úr úrkomu og gera má ráð fyrir að birti til.

Gera má ráð fyrir stífum suðlægum áttum með úrkomu af og til vestantil á landinu en annars almennt hægum vindum og blíðviðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands:

Á mánudag:

Fremur hæg vestlæg eða breytileg átt og víða dálítil væta í fyrstu, en yfirleitt þurrt eftir hádegi. Hiti 3 til 8 stig.

Á þriðjudag:

Sunnan 3-10, en 10-15 vestast á landinu síðdegis. Skýjað að mestu og þurrt að kalla sunnan- og vestanlands, en léttskýjað um landið norðan- og austanvert. Hiti 4 til 9 stig.

Á miðvikudag:

Stíf suðaustlæg átt og rigning vestantil, en annars hægari vindur og þurrt. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Suðaustanátt og rigning suðvestantil, en annars hæg breytileg átt og bjartviðri. Milt í veðri.

Á föstudag:

Hæg breytileg átt og smáskúrir um landið vestanvert. Hægt kólnandi.

Á laugardag:

Hæg norðlæg átt og skúrir eða slydduél, en þurrt að kalla sunnanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×