Innlent

Fjár­fram­lög til sam­göngu­mála aukin um rúma tíu milljarða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá framkvæmdum á Reykjanesbraut við gatnamótin við Sæbraut í sumar en á næsta ári er gert ráð fyrir að 4,8 milljarðar fari í framkvæmdir á stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu, meðal annars Reykjanesbraut.
Frá framkvæmdum á Reykjanesbraut við gatnamótin við Sæbraut í sumar en á næsta ári er gert ráð fyrir að 4,8 milljarðar fari í framkvæmdir á stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu, meðal annars Reykjanesbraut. Vísir/Vilhelm

Fjárframlög til samgöngumála verða aukin á næsta ári um rúma tíu milljarða króna frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum sem nema um 440 milljónum króna.

Heildarfjárheimildin fer þannig úr um 45,5 milljörðum króna í rúmlega 56 milljarða króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Mestu munar um 11,4 milljarða króna sem fara inn í málaflokkinn með vísun í sérstakt fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Af þeirri upphæð dragast svo 243 milljónir króna annars vegar og 860 milljónir króna hins vegar. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 243 milljónir vegna áætlunar Samgöngustofu um lægri rekstrartekjur vegna fyrirsjáanlega minna umfangs.

860 milljónirnar eru síðan hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu sem gerð er almennt í samgöngu- og fjarskiptamálum.

Á meðal helstu verkefna í samgöngumálum sem talin eru upp í greinargerð fjárlagafrumvarpsins er stórátak í vegaframkvæmdum í samræmi við fyrrnefnt fjárfestingaátak.

4,8 milljarðar verða settir í þetta átak samkvæmt frumvarpinu og á að ráðast í framkvæmdir á stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu; á Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi.

Þá eru einnig nefndar framkvæmdir á Þverárfjallsvegi og Skagastrandarvegi, Borgarfjarðarvegi, Snæfellsnesvegi um Skógarströnd og hringtorg við Landvegamót á Eyrarbakkavegi og á Flúðum.

2,6 milljarðar króna eiga síðan að fara í fækkun einbreiðra brúa á hringveginum í samræmi við fjárfestingaátakið, meðal annars á Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi, yfir Núpsvötn, Stóru-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi og Skjálfandafljót á hringvegi hjá Fosshóli og Goðafossi.

Allt það helsta um fjárlagafrumvarpið 2021 má finna í Vaktinni á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×