Makamál

Heldur úti Instagramsíðunni Barnabitar samhliða læknanámi í Danmörku

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Álfhildur Reynisdóttir er búsett í Danmörku og er á fimmta ári í læknisfræði. Samhliða náminu heldur hún úti síðunni Barnabitar á Instagram þar sem hún deilir hugmyndum og fróðleik um mat handa börnum. 
Álfhildur Reynisdóttir er búsett í Danmörku og er á fimmta ári í læknisfræði. Samhliða náminu heldur hún úti síðunni Barnabitar á Instagram þar sem hún deilir hugmyndum og fróðleik um mat handa börnum.  Aðsend mynd

„Ég hef aldrei verið mikil matarmanneskja, borðað fáar tegundir og einhæft mataræði.Það hins vegar hvatti mig enn frekar til að „passa“ það að dóttir mín myndi ekki enda í sama pakka og ég“ segir Álfhildur Reynisdóttir sem heldur úti Instagramsíðunni Barnabitar.

Á síðunni má sjá úrval af hugmyndum, myndum og fróðleik um mat og frumlega framreiðslu matardiska fyrir börn en tæplega 6000 manns fylgja síðunni.

„Ég byrjaði með þessa síðu í mars 2019, þegar dóttir mín var átta mánaða gömul. Ég var í mestu vandræðum sem ný móðir að finna út úr þessu öllu saman. Mér fannst erfitt að finna aðgengilegar uppskriftir á íslensku sem hentuðu svona litlum börnum og væru um leið fljótgerðar.“

Brjóstagjöfin gekk því miður ekki eins og ég óskaði mér, sem gaf mér aukna löngun og metnað í að gera mitt allra besta þegar kom að mataræði hennar.

Álfhildur ásamt dóttur sinni Amalíu. Aðsend mynd

Álfhildur er búsett í Danmörku ásamt kærasta sínum Vilhjálmi Karli og dóttur sinni Amalíu Ölvu og er hún á fimmta ári í læknisfræði. Aðspurð hvort hún hafi alltaf verið mikill matargrúskari segir hún að sú hafi aldeilis ekki verið raunin.

„Vinum og fjölskyldu finnst þetta ábyggilega fyndin spurning fyrir mig að fá. Ég hef aldrei verið mikil matarmanneskja, borðað fáar tegundir og einhæft.

Það hins vegar hvatti mig enn frekar til að „passa“ að dóttir mín myndi ekki enda í sama pakka og ég. Ég hef frá byrjun gefið henni mjög fjölbreytta fæðu og reynt að gera matartímann að skemmtilegri stund.“

Álfhildur ásamt kærasta sínum Vilhjálmi Karli og dóttur sinni Amalíu Ölvu. Aðsend mynd

Að börn sé þátttakendur í matargerðinni með foreldrum segir Álfhildur vera mikilvægt meðal annars til að örva áhuga þeirra á mat og gera þau spenntari og opnari fyrir því að smakka nýja fæðu. 

„Ég leyfi henni að taka þátt í matargerðinni, við ræðum hvernig maturinn er á litinn og hún fær að hræra og hella. Við höfum búið saman til smakkbakka, þá skerum við niður allskonar matartegundir sem við finnum til í skápunum og röðum skrautlega ofan í klakabox. Það gerir það ekki eins ógnandi, ef svo má að orði komast, að prófa nýjar tegundir og hún verður spenntari fyrir því að borða þegar hún fær að hjálpa til.“

Hér er dæmi um smakkbakka sem Álfhildur útbýr fyrir dóttur sína. Hún segir að með því að bjóða smá skammta af nýrri fæðutegund með öðrum þá verði það meira spennandi að bæta við nýrri fæðu við mataræðið. Aðsend mynd

„Ég fæ mikið af fyrirspurnum frá foreldrum og oft beiðnir um að sýna hitt og þetta. Einnig fæ ég margar spurningar um það hvaða matur henti hvaða aldri. Þetta er auðvitað mikil vinna að halda úti svona síðu en ég fæ mikið af hrósum og hvatningu sem gerir þetta enn skemmtilegra.“

Mynd - Álfhildur

Hvað er að þínu mati mikilvægt að hugsa út í þegar við útbúum mat handa börnum?

Ég myndi segja hreint fæði og fjölbreytt með dass af þrjósku frá foreldri. Ég hef oft lent í því að dóttir mín elski einhverja matartegund en neitar henni svo næsta dag, þarna skiptir máli að vera samkvæmur sjálfum sér. Halda áfram gefa fæðutegundina í bland við annað og leyfa barninu að venjast.

„Dóttir mín er einmitt tveggja ára núna og undanfarið finn ég fyrir auknu sjálfsstæði hjá henni, hún hefur mikið um hlutina að segja. Þá er ég mjög fegin að hafa frá byrjun lagt góðan grunn í hennar mataræði, þar sem matartíminn gengur lang oftast vel.“

Myndirnar á Instagram síðunni þykja einstaklega litríkar og fallegar og augljóst að Álfhildur leggur mikið upp úr því að gera matartímann svolítið ævintýralegan. Inn á milli má einnig sjá fróðleiksmola um næringu og ýmsar fæðutegundir og segir Álfhildur að eðlilega fari mikil vinna í að halda úti síðunni. 

Meðvituð um óraunhæfan veruleika

„Ég er orðin meðvituð um það að búa ekki til óraunhæfan veruleika fyrir fylgendur mína og passa að foreldrar haldi ekki að það sé nauðsynlegt að skera brauð í blóm eða búa til froska úr ávöxtum til að útbúa góðan mat.“

Þetta er orðið einskonar áhugamál hjá mér og dýrmætur tími að hlusta á góða tónlist og dunda mér í eldhúsinu. Það er algjört aukaatriði að maturinn sé vel skreyttur, en það gerir þetta bara skemmtilegra allt saman.

Eins og sjá má hér hefur Álfhildur einstaklega gaman að því að skreyta matardiskinn. Mynd - Álfhildur

Að lokum segir Álfhildur það mikilvægt að foreldrar hafi það hugfast að börn eru eins ólík og þau eru mörg og þurfi mismikla og ólíka fæðu.

„Ég mæli með því að hlusta á þitt barn og ekki bera það saman við önnur börn. Þú veist alltaf hvað er best fyrir þitt barn.“

Álfhildur deilir hér með lesendum þremur hugmyndum af nesti í nestisboxið.

Mynd - Álfhildur

1. Niðurskornar eplaskífur með jógúrti. Hægt er að skreyta þær með múslí, kókosflögum, þurrkuðum ávöxtum eða hverju sem hugurinn girnist.

Mynd - Álfhildur

2. Guacamole og flatkökuþríhyrningar ásamt sellerístöngum með hnetusmjöri og rúsínum. 

Mynd - Álfhildur

3. Flatköku"sushi". Upprúlluð flatkaka með hnetusmjöri og banana, grískt jógúrt með granola og berjum.

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast Instagram síðu Barnabita hér. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.