Erlent

Zelenskíj hristir hressi­lega upp í ríkis­stjórn sinni

Atli Ísleifsson skrifar
Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti á þingfundi í gær.
Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti á þingfundi í gær. vísir/vilhelm

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti hefur gert víðtækar breytingar á ríkisstjórn landsins þar sem forsætisráðherranum hefur meðal annars verið komið frá.

Með þessu er Zelenskíj að breðgast við dvínandi vinsældum stjórnar hans, auk þess að sérstök óánægja ríki með að tafir hafi orðið á þeim umbótum sem lofað var að ráðist yrði í.

Meirihluti úkraínska þingsins samþykkti að koma forsætisráðherranum, hinum 35 ára Oleksiy Honcharuk, frá í atkvæðagreiðslu í gær. Honcharuk tók við embætti forsætisráðherra fyrir um hálfu ári og hefur stjórnartíð hans einkennst af deilum innan stjórnarinnar.

Honcharuk bauðst til að segja af sér fyrir fáeinum mánuðum eftir að upptaka var birt af honum þar sem hann gagnrýndi skilning forsetans Zelenskíj á efnahagsmálum.

Zelenskíj hefur tilnefnt hinn 44 ára Denys Shmygal sem næsta forsætisráðherra landsins. Hann er lítt þekktur embættismaður frá vesturhluta landsins sem hefur starfað fyrir orkufyrirtækið DTEK sem er í eigu Rinat Akhmetov, eins af ríkustu mönnum landsins.

Öðrum ráðherrum, meðal annars heilbrigðisráðherranum, hefur einnig verið komið frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×