Innlent

Þing Norðurlandaráðs blásið af

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
72. þing Norðurlandaráðs átti að halda í Hörpu í október.
72. þing Norðurlandaráðs átti að halda í Hörpu í október. Vísir/Vilhelm

Ekkert verður af því Norðurlandaráðsþingið verði haldið í október eins og ráð var gert fyrir. Forsætisnefnd ráðsins tók ákvörðun um þetta á fundi sínum í dag. Ástæðan er COVID-19-faraldurinn sem kemur í veg fyrir að hægt sé að skipuleggja og halda þingið samkvæmt áætlun.

Þetta kemur fram á vef Norðurlandaráðs en í þetta sinn átti fundurinn að fara fram í Hörpu í Reykjavík þar sem Ísland fer með formennsku í ráðinu ár. Hefð er fyrir því að halda þingið í því landi sem fer með formennskuna.

Þingmenn á Norðurlöndum eru vanir að taka þingvikuna frá og helga hana norrænum málefnum og forsætisnefndin boðar að svo skuli einnig vera í ár þrátt fyrir að sjálfu þinginu hafi verið aflýst að því er fram kemur á vef ráðsins.

„Ekkert kemur í stað þingsins, sem slíks, en við munum halda fjarfundi til að sinna hinu pólitíska starfi,“ er haft eftir Silju Dögg Gunnarsdóttur forseta Norðurlandaráðs. Að sögn hennar liggur útfærslan ekki enn fyrir en nú fer skipulagningin af stað á fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×