Atvinnulíf

Þynnka í vinnunni: Fimm góð ráð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Í Bandaríkjunum viðurkenna 75% fólks að hafa einhvern tíman verið þunnir í vinnunni. Ekki er ólíklegt að einhverjir hér kannist við þannig daga.
Í Bandaríkjunum viðurkenna 75% fólks að hafa einhvern tíman verið þunnir í vinnunni. Ekki er ólíklegt að einhverjir hér kannist við þannig daga. Vísir/Getty
Það eru nokkur atriði sem geta dregið úr þynnku. Til dæmis er sagt að hunang dragi úr einkennum timburmanna.Vísir/Getty

Já ætli það sé ekki best að viðurkenna það: Þynnka í gangi og vinnuviku þó ekki lokið. Stundum kemur þetta jú fyrir. Til dæmis daginn eftir gleðskap vegna vinnunnar, afmælisfagnað í miðri viku eða eitthvað annað sem varð til þess að við slógum til og fengum okkur einn eða tvo.

Í rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum viðurkenndu 75% starfsmanna að þeir hefðu einhvern tímann mætt þunnir til vinnu. Það er því ekki ólíklegt að einhverjir kannist við þetta hér. En lítum á nokkur góð ráð sem gætu gert daginn aðeins skárri.

1. Ætlar þú að mæta í vinnu?

Þetta er fyrsta ákvörðunin sem þú þarft að taka í dag. Ein leið til að taka þessa ákvörðun er að fara fram úr og byrja að gera sig klára/n fyrir vinnuna. Ef þú ert ekkert farin að hressast um það leyti sem þú ætlar út um útidyrnar, skaltu staldra við og jafnvel hringja þig inn veikan.

Áður en að þessari ákvörðun kemur, skulum við skoða aðeins næstu skref.

2. Sturtan og klæðnaður.

Hér er mælt með því að svissa nokkrum sinnum á milli heita vatnsins og kalda vatnsins í sturtunni. Þetta kemur blóðrásinni af stað og hjálpar þér að vakna. Þegar það eru enn áfengisleifar í líkamanum

Þá gefur lifrin frá sér hita og hormónarnir eru ekki í jafnvægi enda er líkaminn í óða önn að reyna að brjóta niður áfengisleifarnar sem enn eru til staðar. Það er því mælt með því að klæðast þægilegum fatnaði og forðast fatnað sem er líklegur til að mynda auðveldlega svitabletti.

3. Morgunmatur.

Drekktu nægan vökva en ekki vanmeta það að borða líka trefjaríkan morgunmat. Þótt lystin sé ekki mikil kemur hafragrauturinn sterkur inn hér. Bláber á grautinn geta líka hjálpað til við að draga úr bólgum og bjúg sem margir upplifa daginn eftir.

Kaffi getur virkað vel á hausverkinn en veldur líka ofþornun. Ef kaffiþambið er mikið þarf að passa vel að vatnsdrykkjan sé það líka.

Hunang er sagt draga úr einkennum timburmanna. Í stað kaffis er mælt með að fá sér grænt te og bæta hunangi í það.

Þá er mælt með því að taka eina panódil eða svo og eins vilja sumir meina að rautt gingseng virki vel.

4. Vinnuumhverfið.

Svimi og hausverkur fyrir framan tölvuskjáinn er ekki í uppáhaldi hjá neinum á svona dögum. Hér er mælt með því að dempa liti á skjánum með því einfaldlega að stilla skjáinn yfir í svart/hvítan. Hér eru leiðbeiningar frá Microsoft.

Lykt getur líka hresst þig við og þar er sérstaklega mælt með piparmintulykt eða lavender. Þetta gæti verið óvinsælt á meðal samstarfsfélaga en sumir vilja meina að það að bera piparmintu eða lavender olíu á magan og neðri hluta baksins geti hjálpað.

5. Dagur að kveldi kominn: Þú lifðir daginn af en... 

Það sem þessi dagur á að hafa kennt þér er að þig langar ekki að upplifa svona daga oft. Þess vegna er mælt með því að í lok dags skrifir þú niður þau fimm atriði sem þú vilt sérstaklega ná árangri í á þessu ári og geymir listann í veskinu. Næst þegar þú ert nálægt því að freistast of mikið í gleðina í miðri vinnuviku, lestu þá listann því hann mun minna þig á þennan dag og að svona dagar haldast ekki í hendur við framúrskarandi árangur og markmið ársins.


Tengdar fréttir

Stundum gott að vera latur í vinnunni

Það eru kannski ekkert margir sem viðurkenna að þeir séu latir. Þó eflaust einhverjir sem sem viðurkenna að vera í stundum latir. Gleðitíðindinn fyrir þessa aðila eru: Það getur margborgað sig að vera stundum latur í vinnunni!

Vinnustaðapartí: Fyrirtæki velt fyrir sér að hætta að bjóða upp á áfengi

Sú ,"brjálæðislega“ hugmynd hefur jafnvel komið upp hjá sumum fyrirtækjum að draga verulega úr eða láta alveg af því að bjóða upp á áfengi í vinnustaðapartíum segir Guðríður Sigríðardóttir ráðgjafi og einn eigandi Attendus. Þetta er í takt við það sem sjá má í umfjöllun erlendra miðla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×