Atvinnulíf

Hamingjusamt fólk þénar meira en aðrir

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Samkvæmt rannsóknum þénar hamingjusamt fólk umtalsvert meiri tekjur en aðrir.
Samkvæmt rannsóknum þénar hamingjusamt fólk umtalsvert meiri tekjur en aðrir. Vísir/Getty

Þótt orðatiltækið kveði á um að hamingjan fáist ekki keypt með peningum eru þeir ófáir sem dreymir um að eiga meiri pening. Rannsóknir sýna hins vegar að til þess að eignast meiri pening á fólk fyrst að leggja áherslu á hamingjuna því henni fylgi oft meiri peningar.

Nokkrar rannsóknir styðja þetta og var ein þeirra framkvæmd af National Academy of Sciences. Í niðurstöðum þeirrar rannsóknar mátti sjá að ungt fólk sem var hamingjusamt þénaði umtalsvert mikið meira en aðrir síðar á lífsleiðinni. Hér er þó gerður sá fyrirvari að niðurstöður sem þessar eiga einkum við um fólk sem þegar hefur náð ákveðnum lágmarkstekjum á ári.

En hvers vegna kann það að vera að hamingjan skili sér í meiri peningum?

Jú, ástæðurnar kunna að vera einfaldari en mörgum grunar og hér eru sex atriði sem eru einkum nefnd þessu til skýringar.

1. Hamingjusamt fólk er almennt jákvæðara

Sá eiginleiki að vera jákvæður skilar sér í því að jákvætt fólk á oft auðveldara með að sjá tækifærin en aðrir því jákvætt fólk einblínir sjaldnast á vandamál nema til að leysa þau. Að sjá tækifærin hefur síðan áhrif á það hvernig fólki gengur í starfi.

2. Hamingjusamt fólk er sjaldnar veikt

Samkvæmt rannsóknum er fólk sem líður vel og er hamingjusamt almennt heilsuhraustara og sjaldnar veikt í samanburði við fólk sem er óánægt eða líður illa. Þá hafa rannsóknir sýnt að hamingjusamt fólk lifir gjarnan lengur.

3. Hamingjusamt fólk afkastar meira en aðrir

Í rannsókn sem gerð var í Englandi sýndu niðurstöður að bein tengsl eru á milli afkastagetu fólks og líðan. Þetta þýðir að fólk sem er hamingjusamt afkastar meira en fólk sem líður illa eða er óhamingjusamt.

4. Hamingjusamt fólk fær jákvæðari umsagnir

Almennt fylgir því oftast að fólk sem er hamingjusamt, jákvætt og duglegt til vinnu fær betri umsagnir eða meðmæli sem starfsmenn en þeir sem eru það ekki. Þetta hefur bein áhrif á það hvernig fólki gengur að vinna sig upp í starfi eða að fá launahækkun.

5. Hamingjusamt fólk er lausnarmiðað

Þá er hamingjusamt fólk lausnarmiðað í hugsun og þeim tamt að reyna að leysa úr vandamálum sem kunna að koma upp. Þessi eiginleiki gerir þetta fólk að eftirsóttu starfsfólki.

6. Hamingjusamt fólk fjárfestir í sjálfu sér

Þá er því haldið fram að hamingjusamt fólk hugsi vel um sjálft sig enda sé það hluti af þeirra vellíðan. Að fjárfesta í sjálfum sér teljast hér atriði eins og menntun eða viljinn til að læra eitthvað nýtt, stunda líkamsrækt og fleira.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.