Erlent

Gefa lítið fyrir handtökuskipunina

Andri Eysteinsson skrifar
Soleimani var ráðinn af dögum í byrjun árs.
Soleimani var ráðinn af dögum í byrjun árs. Vísir/Getty

Hvorki Interpol né Bandaríkjastjórn gefa mikið fyrir handtökutilskipun sem írönsk stjórnvöld gáfu út á hendur Bandaríkjaforseta, Donald Trump, og 35 öðrum vegna dauða hershöfðingjans Qasem Soleimani í byrjun árs.

Aðilarnir 36 eru þeir sem Íranir telja að hafi staðið að drónaárás sem felldi herforingjann nærri Baghdad 3. janúar síðastliðinn.

Íran gaf út skipunina og óskaði eftir því að alþjóðalögreglan Interpol myndi aðstoða við það að koma höndum á Bandaríkjaforseta en BBC greinir frá því að stofnunin hafi gefið út að ekki verði gengið að kröfum íranskra yfirvalda.

Í tilkynningu íranskra yfirvalda sagði að þeir 36 sem tilgreindir eru hafi borið ábyrgð á dauða Soleimani og var Bandaríkjaforseti efstur á listanum. Sagði Ali Alqasimehr saksóknari að sækjast skuli eftir því að Trump verði handtekinn þó að embættistíð hans ljúki.

Krafa Íran er sögð endurspegla vaxandi spennu á milli ríkjanna tveggja eftir að Trump rifti kjarnorkusamningi sem heimsveldin gerðu við Íran.

Guardian hefur eftir Brian Hook, fulltrúa Bandaríkjanna fyrir málefni Íran, að Bandaríkin telji handtökuskipunina eingöngu vera áróðursbragð sem alls ekki skuli taka alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×