Atvinnulíf

Fækkun ferðalaga, breytt fundarmenning og ný tækifæri fyrir alþjóðlegt umhverfi

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Valdís Arnórsdóttir hjá Marel.
Valdís Arnórsdóttir hjá Marel. Vísir/Vilhelm

Fundarmenning, þrif, fækkun ferðalaga, rafrænir viðburðir og áhersla á andlega líðan starfsfólks er meðal þeirra atriða sem Valdís Arnórsdóttir hjá Marel nefnir í svörum sínum um það hvernig vinnustaðurinn er að breytast í kjölfar kórónufaraldurs. 

Þá segir Valdís umhverfi alþjóðlegra fyrirtækja vera að breytast umtalsvert. 

„Þessi faraldur hefur gefið alþjóðlegum fyrirtækjum tækifæri til að prófa aðstæður sem áður voru ekki taldar henta eða ganga upp,“ segir Valdís og bætir við „Sem dæmi þá hafa verið haldnir stórir rafrænir viðburðir fyrir viðskiptavini okkar sem hefðu að óbreyttu farið fram á ákveðnum stað með tilheyrandi ferðalögum á fólki og búnaði. Þá hafa allir starfsmannafundir félagsins færst yfir á rafrænt form.“

Í dag fjallar Atvinnulífið á Vísi um hið nýja ,,norm“ vinnustaða: Í hverju felst það, hvað hefur breyst og hvað mun breytast til frambúðar í kjölfar kórónufaraldurs?

Í þessari annarri grein af þremur er rætt við Valdísi Arnórsdóttur sem er stjórnandi á mannauðssviði móðurfélags Marel og leiðir alþjóðlegt viðbragðsteymi Marel gegn COVID-19 í 30 löndum. Hjá þeim hefur alþjóðlega viðbragðsteymið tekið saman helstu þætti varðandi endurkomu starfsfólks á vinnustaðinn í áætlun sem ætlað er að tryggja áframhaldandi öryggi starfsmanna Marel og rekstraröryggi.

Við byrjuðum á því að spyrja Valdísi með hvaða hætti endurkomuáætlunin er að breyta vinnustaðnum.

„Endurkomuáætlunin tekur á margvíslegum þáttum svo sem stífari þrifa- og hreinlætisáætlun, breyttu skipulagi á vinnustað að teknu tilliti til fjölda á staðnum og fjarlægðar milli vinnustöðva.

Starfsfólki verður áfram gefin kostur á auknum sveigjanleiki á vinnutíma og vinnustað og framleiðslustarfsfólk hefur forgang í aðgengi að starfsstöðvum Marel þar sem samkomutakmörkunum hefur ekki verið aflétt enda getur það starsfólk ekki sinnt vinnu sinni heiman frá.

Samskipti fara nú að mestu leyti í gegnum Microsoft Teams og aðra rafræna miðla og það hefur kallað á endurskoðun á tíðni og eðli samskipta, vali á samskiptatækjum og samskiptaleiðum.

Í kjölfarið tekur fundarmenning breytingum sem og öll þjálfun fer nú fram með rafrænum hætti.

Þá hugum við að andlegri heilsu starfsmanna við endurkomu á vinnustaðinn en það getur reynst starfsmönnum jafnmikil breyting að koma til baka eins og það var að fara heim og þar gerum við ráðstafanir til að vinna í hvatningu, helgun, kvíða og jafnvel ótta.

Síðast en ekki síst gerir áætlunin ráð fyrir því að seinni bylgja faraldursins muni koma og þá viðbrögðum við því,“ segir Valdís.

Valdís segir kórónufaraldurinn  hafa gefið alþjóðlegum fyrirtækjum tækifæri til að prófa nýjar aðstæður sem áður þóttu ekki hentugar.Vísir/Vilhelm

Að hennar sögn mun faraldurinn breyta mörgu í hinu alþjóðlega umhverfi og nefnir þar sem dæmi stóra viðburði þar sem fólk ferðast á milli landa til að hittast. Hjá Marel er ætlunin að fækka ferðalögum frá því sem áður var.

Ferðaleiðbeiningar hafa verið endurskoðaðar með það að markmiði tryggja öryggi starfsmanna á ferðlögum og einnig að fækka ferðalögum,“ 

segir Valdís.

En kalla einhverjar breytingar á vinnustaðnum á endurskoðun eða breytingar á ráðningasamningum starfsfólks?

„Nei ráðningarsamningar hafa ekki breyst en auðvitað hefur margt varðandi vinnufyrirkomulag breyst sem nú þarf að koma til móts við,“ segir Valdís og bætir við „Þetta á til dæmis um aukinn sveigjanleika á vinnutíma og aðstoð við að koma upp viðunandi vinnuaðstöðu heima fyrir.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.