Erlent

Spánverjar opna landið fyrir ferðamönnum í júlí

Andri Eysteinsson skrifar
Möguleiki er að kíkja á suðrænar strendur Spánar í júlí.
Möguleiki er að kíkja á suðrænar strendur Spánar í júlí. Getty/SOPA

Yfirvöld á Spáni hyggjast opna landið að nýju fyrir erlendum ferðamönnum í júlí, þetta tilkynnti spænski forsætisráðherrann Pedro Sanchez í ávarpi sínu sem sjónvarpað var í dag.

Spánn hefur farið illa út úr faraldri kórónuveirunnar og hefur útgöngubann verið í gildi í landinum frá 14. mars síðastliðnum en aðgerðir þarlendra stjórnvalda þykja einar þær hörðustu í Evrópu.

Andstæðingar forsætisráðherrans Sanchez í stjórnmálaflokknum Vox efndu til mótmæla víða um landið í dag þar sem afsagnar Sanchez og varaforsætisráðherrans Pablo Iglesias er krafist auk afléttingar takmarkana vegna afleiðinga sem aðgerðirnar hafa haft á efnahag landsins.

Sérstaklega var mótmælti í stórborgunum Barcelona og Madrid þar sem aðgerðirnar hafa verið hvað harðastar vegna mikils fjölda smita. Frá og með mánudeginum verða samkomur hópa sem skipaðir eru af tíu manns leyfðar að nýju ásamt því að heimilt verður að borða á útisvæðum veitingastaða. Reuters greinir frá.

Yfir 230.000 tilfelli veirunnar hafa verið staðfest á Spáni og hafa 28.628 látist af völdum hennar í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×