Handbolti

Pólverjar unnu Þjóðverja - Dönum nægir sigur gegn Svíum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Pólverjar unnu eins marks sigur á Þjóðverjum, 33-32, í fyrsta leik dagsins í milliriðli eitt á Evrópumótinu í Serbíu og þýska liðið á því ekki lengur möguleika á því að komast í undanúrslit á mótinu.

Pólverjar eiga enn möguleika á sæti í undanúrslitunum en þurfa að treysta á það að Danir vinni ekki Svía. Danir eru hinsvegar komnir í dauðafæri því sigur gegn Svíum kemur þeim inn í undanúrslitin.

Þjóðverjar voru næstum því búnir að stela sigrinum í leikslok en Pólverjar héldu út og tryggðu sér sigur.

Bartosz Jurecki og Patryk Kuchczyński skoruðu báðir fimm mörk fyrir Pólverja en Dominik Klein og Christian Sprenger skoruðu báðir sjö mörk fyrir þýska liðið.

Pólverjar náðu frumkvæðinu í upphafi leiks og komust í bæði 4-2 og 10-7. Pólverjar voru síðan með fjögurra marka forystu, 14-10, þegar 9 mínútur voru til hálfleiks.

Þjóðverjar náðum góðan endaspretti í hálfleiknum og náðu að jafna metin í 15-15, þegar fjórar og hálf mínúta var eftir. Þýska liðið hafði þá unnið síðustu rúmar fjórar mínútur 5-1 en Pólverjar náðu engu að síður að vera 18-17 yfir í hálfleik.

Pólverjar héldu frumkvæðinu í seinni hálfleiknum og náðu fjögurra marka forystu um miðjan hálfleikinn, 28-24.

Pólverjar voru 29-25 yfir þegar 14 mínútur voru eftir. Þjóðverjar skoruðu þá sex mörk í röð og komust yfir í 31-29 þegar fjórar mínútur voru eftir. Pólverjar svöruðu með tveimur mörkum og lokamínúturnar voru æsispennandi.

Þjóðverjinn Dominik Klein fékk beint rautt spjald fyrir gróft brot á Krzysztof Lijewski en bæði Lijewski og Michael Haass fóru í kjölfarið meiddir af velli.

Pólverjar komust í 32-31 þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir og Þjóðverjar tóku leikhlé þegar 90 sekúndur voru eftir. Lars Kaufmann jafnaði metin í 32-32 en Michal Jurecki kom Pólverjum aftur yfir í 33-32 og það reyndist vera sigurmarkið í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×