Handbolti

Danir unnu Svía örugglega og komust í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Danir kórónuðu frábæra frammistöðu sína í milliriðlunum með því að vinna sjö marka sigur á Svíum í kvöld, 31-24, og tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar. Danir komu stigalausir inn í milliriðilinn en gáfust ekki upp og unnu alla leiki sína á móti Makedóníu, Þýskalandi og Svíum.

Danir fengu fyrr í dag góða hjálp frá Pólverjum sem unnu þá Þjóðverja og komu Dönum jafnframt í dauðafæri að tryggja sér sæti í undanúrslitunum. Danir spila því um verðlaun í fimmta sinn á síðustu sex Evrópumótum. Danir mæta Spánverjum í undanúrslitunum en í hinum undanúrslitaleiknum mætast síðan Serbar og Króatar.

Anders Eggert skoraði sjö mörk fyrir Dani og Mikkel Hansen skoraði fimm mörk. Niklas Landin varði líka frábærlega í markinu og þar á meðal þrjú vítaköst. Kim Andersson skoraði átta mörk fyrir Svía.

Danir gáfu tóninn strax í byrjun leiks og litu ekki til baka eftir það. Þeir komust í 3-0, 9-6 og 13-8 en forystan var síðan sjö mörk í hálfleik, 18-11.

Danir héldu öruggri forystu allan seinni hálfleikinn og unnu á endanum með sjö marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×